Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Evrópusambandið (ESB) fyrir hönd Dana og Bretar deila nú um fisk, nánar tiltekið sandsíli, sem danskir bátar hafa til þessa veitt að hluta til í breskri lögsögu í Norðursjó en fá ekki lengur. Framkvæmdastjórn ESB segir að þessi afstaða Breta brjóti gegn Brexit-samkomulaginu svonefnda, sem gert var þegar Bretar gengu úr ESB, og hafa sent formlega skriflega kvörtun til breskra stjórnvalda.
Fram kemur á vef danska ríkisútvarpsins, DR, að í tengslum við Brexit-samninginn fyrir þremur árum hafi verið ákveðið að Danir greiddu Bretlandi fyrir aðgang að veiði í breskri lögsögu. En í mars bönnuðu Bretar alla sandsílaveiði í sinni lögsögu í Norðursjó og byggðu þá ákvörðun á því að sjófuglastofnar, sem hafa sandsíli sem aðalfæðu, eigi undir högg að sækja.
Framkvæmdastjórn ESB telur hins vegar, að veiðibann Bretlands byggist ekki á vísindalegum grunni og hefur sent Bretum formlega kvörtun eins og áður segir.
Jacob Jensen, sjávarútvegsráðherra Dana, fagnar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og segir við DR að þetta sé afdrifaríkt skref en nauðsynlegt. Í sama streng tekur Svend-Erik Andersen, formaður dönsku sjómannasamtakanna.
Danir með 96% kvótans
Fram kemur í umfjöllun DR að danskir sjómenn hafi undanfarna mánuði reynt að fá Breta til að falla frá ákvörðun sinni í samvinnu við danska ráðherra og Evrópuþingmenn, þar á meðal Asger Christensen, sem situr á Evrópuþinginu og er varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópusambandsins. Segir hann við DR að veiðibann Breta í Norðursjó byggist ekki á náttúruverndarsjónarmiðum heldur sé það tilraun til að skora nokkur ódýr stig í innanríkispólitík.
Veiðar á sandsíli eru einkum stundaðar í Norðursjó, Skagerak og Kattegat, aðallega af dönskum og norskum skipum og er fiskurinn mikilvægt hráefni í fiskimjöls- og lýsisframleiðslu. Danskir sjómenn hafa fengið 96% af sandsílakvóta Evrópusambandsins í Norðursjó í sinn hlut. Veiðarnar þar eru stundaðar á svonefndum Doggerbanka og stærstur hluti hans er innan breskrar lögsögu. Alls veiddu danskir sjómenn 118 þúsund tonn af sandsíli á síðasta ári. Tekjur af veiðunum voru áætlaðar um 500 milljónir danskra króna, jafnvirði um 10 milljarða íslenskra króna, og þar af komu um 300 milljóna danskra króna tekjur af veiðum í breskri lögsögu. Heildartekjur Dana af fiskveiðum eru um 3,1 milljarður danskra króna.
Að sögn danska ríkisútvarpsins vísa bresk stjórnvöld því á bug að veiðibannið sé brot á Brexit-samkomulaginu. Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins sagði í skriflegu svari til DR að ákvörðunin væri tekin til að vernda sjófugla. Hún væri í fullu samræmi við skyldur ríkisins samkvæmt viðskiptasamningi við Evrópusambandið og bannið næði bæði til breskra skipa og skipa annarra ríkja.
Sandsílaveiðin stendur venjulega frá 1. apríl fram til í júlí. Danskir sjómenn vona að Bretar falli frá veiðibanninu fyrir þann tíma en viðurkenna að líkurnar á því séu litlar.
Brexit-samkomulagið kveður á um málsmeðferð ef ágreiningur rís um framkvæmd þess. Samkvæmt því hafa Bretar 10 daga frest til að svara erindi framkvæmdastjórnarinnar en finnist ekki lausn á næstu 30 dögum getur Evrópusambandið skotið málinu til gerðardóms.
Sandsíli
Mikilvæg fæða fugla og fiska
Heimkynni sandsílis, sem getur orðið allt að 20 sm langt, eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandi að norðan og vestan og Múrmansk að austan. Það er mikilvæg fæða margra fiska, t.d. þorsks, ýsu, ufsa, lýsu og fleiri tegunda auk þess sem alls konar fuglar, t.d. kría, rita, lundi, teista og svartbakur, éta það með góðri lyst.
Hér við land er sandsíli við suður-, suðvestur- og vesturströndina. Vorið 1966 var gerð tilraun til að veiða þennan fisk í Faxaflóa og við Suðvesturland og hún endurtekin árin 1978 og 1979 en bar ekki góðan árangur.