Toyoda hneigir sig og biðst afsökunar á blaðamannafundi í byrjun mánaðarins eftir að starfsmenn urðu uppvísir að svindli í öryggisprófunum. Svindlið, og önnur mál af sama meiði, kostaði Toyoda næstum starfið en á aðalfundi sem haldinn var í gær ákváðu hluthafar að það vægi þyngra að rekstur Toyota hefur aldrei gengið betur.
Toyoda hneigir sig og biðst afsökunar á blaðamannafundi í byrjun mánaðarins eftir að starfsmenn urðu uppvísir að svindli í öryggisprófunum. Svindlið, og önnur mál af sama meiði, kostaði Toyoda næstum starfið en á aðalfundi sem haldinn var í gær ákváðu hluthafar að það vægi þyngra að rekstur Toyota hefur aldrei gengið betur. — AFP/Yuichi Yamazaki
Þegar hér um bil allir virðast stefna í sömu átt og vera á sömu skoðun er góð regla að hlusta vandlega á þá sem synda á móti straumnum. Akio Toyoda, núverandi stjórnarformaður og fyrrverandi forstjóri japanska bílarisans Toyota, er maður sem þorir…

Þegar hér um bil allir virðast stefna í sömu átt og vera á sömu skoðun er góð regla að hlusta vandlega á þá sem synda á móti straumnum.

Akio Toyoda, núverandi stjórnarformaður og fyrrverandi forstjóri japanska bílarisans Toyota, er maður sem þorir að synda á móti straumnum og fylgja eigin sannfæringu, og blasti útkoman við á dögunum þegar fyrirtækið birti glimrandi rekstrartölur fyrir síðasta ár.

Það var undir stjórn Toyoda að félagið markaði þá stefnu að fara sér að engu óðslega við þróun rafbíla en leggja frekar megináherslu á að fullkomna tvinnbílatæknina og draga þannig úr eldsneytisnotkun og útblæstri. Umhverfisverndarsinnar og fjárfestar voru margir óánægðir með þessa ákvörðun stærsta bílaframleiðanda heims; þeir sökuðu fyrirtækið um að draga lappirnar í umhverfismálum og vöruðu við því að tæknikapphlaup væri að bresta á þar sem Toyota myndi reka lestina.

Nú virðist rafbílasala á Vesturlöndum hafa rekist á þak. Framleiðendur bera sig ekki vel og hjá flestum þeirra virðist enn langt í land að rafbílasmíðin standi undir sér. Greinendur rekja kólnun rafbílamarkaðarins til þess að verð rafbíla sé enn of hátt og að hleðsluinnviðir hafi ekki haldið í við rafvæðingu bílaflotans. Neytendur sækja samt í græna valkosti og hefur sala bifreiða með tvinnaflrás tekið kipp, og eins og Toyoda hafði spáð eru tvinnbílarnir að reynast heppilegur meðalvegur. Þeir eru ekki dýrir en eru sparneytnir og í tilviki tengiltvinnbíla má reyna að láta þá ganga fyrir rafmagninu einu saman en hafa samt sprengihreyfilinn upp á að hlaupa.

Toyota hefur aldrei selt fleiri bíla en á rekstrarárinu til og með mars síðastliðnum. Hagnaðurinn sló líka öll met og var langt umfram væntingar markaðarins, en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað í takt við sölutölurnar og styrkst um 35% á undanförnum tólf mánuðum.

Með þarfir almennings í huga

Rökin hjá Toyoda og skoðanabræðrum hans eru í raun ósköp einföld: Fyrir stóran hluta jarðarbúa er hreinlega ekki gerlegt að rafvæða bílasamgöngur, bæði vegna þess að rafmagnsbílarnir verða dýrari valkostur enn um sinn og svo vantar innviðina og rafmagnið. Evrópa og Bandaríkin geta kannski rafvætt bílaflotann að miklum hluta en meira að segja í þróuðustu og ríkustu löndum munu orkuskiptin kalla á meiri háttar fjárfestingu í öflugra dreifikerfi og aukinni raforkuframleiðslu. Í flestum öðrum heimshlutum er á mörkunum að nóg rafmagn sé í boði til að mæta lágmarksþörfum heimila og fyrirtækja og minnti Toyoda á það í erindi fyrr á þessu ári að milljarður jarðarbúa hefur engan eða skertan aðgang að raforku. Fyrir allan þorra mannkyns er það einfaldlega efnahagslegur og pólitískur veruleiki að rafmagnsbílar munu líklega ekki koma til greina næstu áratugina og sjálfur hefur Toyoda áætlað að heildarhlutdeild rafmagnsbíla á bílamarkaðinum á heimsvísu muni aldrei fara yfir 30% en að hin 70% muni samanstanda af tvinnbílum, vetnisbílum og hefðbundnum bensín- og dísilbifreiðum:

„Þetta verður ekki ákveðið með reglugerðum eða með pólitísku valdboði, heldur eru það neytendur og markaðurinn sem munu ákveða [orkusamsetningu bílaflotans],“ sagði Toyoda á ráðstefnu fyrr á þessu ári og lét það fljóta með við sama tækifæri að þróun og innleiðing tvinnbifreiða í Japan hefði átt þátt í því að landinu tókst að minnka koltvísýringsútblástur sinn um 23%. „Þetta er eitthvað sem enginn virðist nenna að benda á, og síst af öllum fjölmiðlar. Það eina sem þau vilja tala um er að Toyota reki lestina í þróun rafbíla.“

Ég hef afskaplega gaman af rafbílum – einkum þeim sem geta rokið af stað eins og rakettur – en mér finnst það líka blasa við að rafbílarnir henta ekki á öllum stöðum, og er Ísland sennilega í hópi örfárra landa þar sem aðstæður fyrir rafbíla eru með besta móti. Bæði er raforkuframleiðslan mikil, og viðráðanlegt verkefni að auka orkuframboðið, en svo er skipulag byggðarinnar líka sniðið að þörfum rafbíla: Hér um bil allir hafa aðgang að einkabílastæði, margir eiga bílskúr þar sem er leikandi létt að koma upp hleðslustöð, og vegalengdirnar í innanbæjarsnattinu eru svo stuttar að ein hleðsla dugar hæglega í nokkra daga.

Sömu sögu er ekki að segja af flestum stórborgum Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem þeir sem á annað borð reka bíl hafa sjaldnast aðgang að einkastæði og hvað þá bílskúr, auk þess sem deilt er um hvort það geri mikið fyrir heimilis- og koltvísýringsbókhaldið að stinga í bíl samband þar sem raforkan er dýr og framleidd með því að brenna gas, kol eða olíu.

Þá hafa sérfræðingar bent á að það hráefni sem framleiðendur reiða sig á sé hreinlega ekki til í því magni sem vantar til að smíða allar þær rafhlöður sem myndu þurfa að renna af færibandinu til að gera orkuskiptamarkmið stjórnvalda víða um heim að veruleika. Allstór hópur landa – Ísland þar á meðal – hefur sett sér það markmið að banna sölu nýrra sprengihreyfilsbíla ekki seinna en 2035 og var bent á það á einum stað að bara til að mæta árlegri endurnýjunarþörf bílaflota þessara þjóða með rafbílum myndi þurfa fimmfalt fleiri rafbíla en allir rafbílaframleiðendur heims smíða í dag. Er það langt umfram bjartsýnustu vaxtarspár framleiðendanna og í engu samræmi við getu námufyrirtækja til að skaffa málma í rafhlöðurnar.

Pólitíkin segir eitt en veruleikinn annað. Þeir bílaframleiðendur sem hafa elt pólitíkina í blindni eiga núna í töluverðu basli, en Toyota – sem beitti jarðbundinni japanskri rökhugsun á verkefnið – er með pálmann í höndunum.

Allir voru að svindla smávegis

Það var eins gott að síðasta rekstrarár gekk svona afskaplega vel hjá Toyota, því litlu mátti muna að Akio Toyoda yrði látinn taka pokann sinn. Aðalfundur Toyota var haldinn í gær og var Toyoda endurkjörinn stjórnarformaður þvert á ráðleggingar hluthafaráðgjafarfélaganna ISS og Glass Lewis sem vildu að hann yrði látinn axla ábyrgð á hneykslismálum sem skekið hafa fyrirtækið og japanskan bíliðnað að undanförnu.

Nýlega greindu japönsk stjórnvöld frá því að rannsókn hefði leitt í ljós að starfsmenn Toyota höfðu bæði falsað gögn og stytt sér leið í öryggisprófunum, en í ársbyrjun var því ljóstrað upp að starfsmenn hefðu einnig svindlað á útblásturs- og vélaprófunum. Dótturfélögin Daihatsu og Hino Motors hafa líka svindlað og hagrætt með kerfisbundnum hætti. Ekki nóg með það heldur hefur fjöldi japanskra framleiðenda reynst hafa óhreint mjöl í pokahorninu og beindust spjótin einnig að Mazda, Suzuki, Yamaha, og nú síðast var Honda tekið til rannsóknar.

Málið hefur þó ekki haft sömu eftirköst og svindlið mikla sem skók Volkswagen árið 2015, enda virðast uppátæki japönsku framleiðendanna hafa verið frekar léttvæg í samanburði, og komin til af því að mæliaðferðir japanskra stjórnvalda eru úreltar og staðlarnir gallaðir.

Hlutabréfaverð Toyota hefur gefið eftir frá því í mars þegar það fór hæst upp í um það bil 3.900 jen, og kostar hluturinn í dag um 3.050 jen. Hluthafar geta þó unað vel við sitt því fyrirtækið er tvöfalt verðmætara í dag en í ársbyrjun 2021.

Sprengihreyfillinn tekur enn framförum

Sjóðir Toyota eru digrir og hyggst fyrirtækið nota hluta af öllum tekjunum af sölu tvinnbíla til að þróa nýja tækni og renna fleiri stoðum undir kjarnastarfsemina, en félagið sendi frá sér viðvörun í maí um að hagnaður á yfirstandandi rekstrarári verði 20% lægri en ráð var fyrir gert því jafnvirði 11 milljarða dala verður ráðstafað í þróun rafbílatækni og gervigreindar.

Þá heldur Toyota áfram að smíða æ betri mótora en í sumarbyrjun svipti fyrirtækið hulunni af nýrri kynslóð bílvéla sem verða mun sparneytnari og skilvirkari en fyrri kynslóðir. Nýja vélin, sem hönnuð var í samvinnu við Mazda og Subaru, mun koma á markaðinn ekki seinna en árið 2027 en hún er með mjög stuttum stimplum, á að vinna með rafmótor, er allt að 20% minni og léttari en sambærilegar vélar, mun geta gengið fyrir bensíni, dísilolíu og vetni og verður 12% sparneytnari en þær vélar sem Toyota notar í dag. Þar sem Toyota var að vinna með vel þekkta tækni, og gat notað þær vélaverksmiðjur sem fyrirtækið á nú þegar, þá var þróunarkostnaðurinn við nýju tímamóta-vélina aðeins brot af því sem fyrirtækið hefur þegar varið í þróun rafbíla.

Þyki lesendum nýja og létta vélin frá Toyota ekki nógu áhugaverð þá hefur fyrirtækið verið að gera tilraunir með vetnismótor sem núna er verið að prófa í rallíbifreið. Vetnið býr vitaskuld ekki til neinn koltvísýring, en útblæstrinum er beint í gegnum síu sem dregur í sig koltvísýringssameindir, svo að kolefnisspor bifreiðarinnar er minna en núll.

Það var ákveðið á nefndarfundi í Brussel, Washington eða í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg að rafbílarnir skyldu bjarga heiminum. Fundinn sótti fólk sem skorti bæði þekkinguna og hugmyndaflugið til að sjá það fyrir að japanskir verkfræðingar myndu hanna bíl sem myndi virka eins og koltvísýringsryksuga.