Ingólfur Ómar sendi mér gott bréf á mánudag: Heill og sæll og gleðilega þjóðhátíð. Himinn var þungbúinn þegar ég leit út í morgun og þoka huldi Esjuna. Það mætti segja mér að nú færi að rigna. Móðu klæðast hvolfin víð kvika á græði sefur

Ingólfur Ómar sendi mér gott bréf á mánudag: Heill og sæll og gleðilega þjóðhátíð. Himinn var þungbúinn þegar ég leit út í morgun og þoka huldi Esjuna. Það mætti segja mér að nú færi að rigna.

Móðu klæðast hvolfin víð

kvika á græði sefur.

Dalalæða dæld og hlíð

dökkri slæðu vefur.

Kristján H. Theodórsson yrkir á Boðnarmiði:

Svo varð það, á sautjánda júní,

að Sigurður, vel kostum búni,

datt oní dý,

og drullugur því,

hann lenti svo langt út á túni.

„Svo þetta“ sögðu Guðmundur og Sólveig Laufási:

Reynhildur rauðar með varir

riðandi á túnblettinn starir

þar Sigurður er

svo til allsber

að reyta af sér rennblautar spjarir

„Aldraðir reykja fisk“ segir Jón Jens Kristjánsson:

Með silungsflök ryðlit og roðbleik

var Reynhildur lúin og stoðveik

en Kristmundur slig-

aði kjallarastig-

ann og komst ekki upp með moðreyk.

Jóhann frá Flögu segir frá því, að beinakerlingin á Kaldadal hafi verið látin mæla:

Sækir að mér sveina val

sem þeir væru óðir.

Kúri ég ein í Kaldadal.

Komið þið, piltar góðir.

Heldur hefur þessi beinakerling verið orðin leið á einlífinu:

Veri þeir allir velkomner

sem við mig spjalla í tryggðum.

Eg get varla unað mér

ein á fjallabyggðum.

Philip Vogler Egilsstöðum skrifar við mynd af brattri fjallshlíð:

Gekk ég spöl um Hjarðarhagaheiði
í dag.

Ef á morgun andast ég

upp hef komist fyrst þann veg.

Mýsuð eftir Örn Arnarson:

Mikið er um hjá mýi á skán

með mælgi og látum skrýtnum.

Það lofar þá mildi og miklar það lán

að mega lifa í skítnum.

Hver kúadella er kostaland.

Þá kenning er skylt að boða,

að jörðin sé skítur, hafið hland

og himinninn keytufroða.