Guðlaug Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 6. janúar 1945. Hún lést á Landspítalanum 4. júní 2024.

Guðlaug var dóttir hjónanna Magnúsar Helga Bjarnasonar, f. 28. janúar 1917, d. 31. janúar 1992, og Önnu Hjartardóttur, f. 24. nóvember 1921, d. 25. nóvember 1998. Systkini Guðlaugar eru Bjarni, f. 14. maí 1942, d. 29. desember 2014, Björg, f. 7. júní 1946, og Magnþóra, f. 18. nóvember 1948, d. 9. mars 2002.

Eiginmaður Guðlaugar er Frank Pétur Hall, f. 11. maí 1944. Þau giftu sig 26. september 1964, bjuggu fyrst í Hraunbænum en lengst af á Seltjarnarnesi. Síðustu árin hafa þau búið á Hverfisgötu í Reykjavík. Börn þeirra eru: 1) Katrín, f. 30. maí 1964, sambýlismaður Guðjón Pedersen. Þeirra börn eru Frank Fannar Pedersen, f. 1. júlí 1990, og Matthea Lára Pedersen, f. 27. apríl 2000. 2) Frank Þórir Hall, f. 20. mars 1972, eiginkona hans er Helga Auðardóttir. Þeirra börn eru Dagur, f. 19. júní 2001, og Þórir, f. 24. júní 2006. 3) Bjarni Lárus Hall, f. 18. september 1979, sambýliskona hans Sunna Sæmundsdóttir. Dóttir Bjarna er Birta, f. 18. september 2010.

Guðlaug ólst upp á Túngötu í Reykjavík, hóf skólagöngu sína í Melaskólanum og lauk svo kvennaskólaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Að námi loknu hóf Guðlaug störf hjá Útvegsbankanum, hún átti svo og rak heildsölu með systur sinni Magnþóru til fjölda ára. Síðustu starfsárin vann Guðlaug hjá skjalasafni Ráðhúss Reykjavíkur.

Útför Guðlaugar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 24. júní 2024, klukkan 13.

Mín yndislega tengdamamma, Gullý, er látin. Hún hefur verið hluti af lífi mínu í 33 ár, eða síðan við Frank sonur hennar fórum að draga okkur saman á menntaskólaárunum. Barðaströndin varð fljótt mitt annað heimili, þar var mér tekið opnum örmum frá upphafi.

Gullý var mögnuð kona, ótrúlegt orkubúnt. Það var aldrei lognmolla í kringum mína glæsilegu tengdamömmu sem var flottust í tauinu, síkvik, alltaf að, vann, þreif, stússaði í garðinum, eldaði veislumat í hvert mál, hélt boð, ferðaðist og sinnti allskonar áhugamálum með tengdapabba. Allt að því er virtist fyrirhafnarlaust og með annarri hendi. Þau tengdapabbi voru gestgjafar fram í fingurgóma og alltaf svo umhugað um að öllum liði sem best. Gullý reyndist okkur Frank og strákunum okkar svo góð, var alltaf styðjandi og hvetjandi, klettur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Það var ekkert sem hún var ekki tilbúin að gera fyrir fjölskylduna sína.

Gullý þurfti að glíma við ýmis veikindi undanfarin ár, oft tóku þau meira á hana en við áttuðum okkur á, því ekki kvartaði hún. En það var af henni dregið, þessari orkumiklu konu og það átti ekki vel við hana. En þegar líkaminn var orðinn veikburða hélt hún sér upptekinni við að skoða ættartengsl fólks á Íslendingabók og lét sig varða menn og málefni.

Það var ekki slegið af útlitskröfum þótt hún væri orðin lasburða, hún skellti alltaf á sig varalit og tengdapabbi keypti á hana föt sem hún fann á netinu. Ég sé hana fyrir mér núna að njóta lífsins með fallegan varalit og sólina í andlitið. Ég þakka elsku Gullý fyrir samfylgdina öll þessi ár og sendi öllum hennar ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Helga Auðardóttir.

Elsku amma Gullý.

Takk fyrir að vera svona skemmtileg. Þegar ég kom í heimsókn varstu alltaf brosandi. Ég man þegar við sátum við sjónvarpið að horfa á Stelpurnar og þegar við vorum saman úti í sólbaði að spila. Þú sast líka oft inni í eldhúsi í tölvunni þegar ég kom í heimsókn að skoða Íslendingabók eða Facebook og að tengja eitthvert fólk saman. Það var alltaf svo gaman að umgangast þig og ég mun alltaf sakna þín. Takk fyrir að vera svona góð amma.

Þín

Birta Hall.

Elsku Gullý systir, nú ert þú farin í sumarlandið góða.

Mig langar að kveðja þig mín kæra systir og vinkona. Við höfum verið samrýndar allt lífið eins og fjölskyldur okkar. Ég hef alltaf litið upp til þín, enda varst þú bæði falleg, góð og vel gefin. Eftir að þú veiktist höfum við talað saman í síma yfir kaffibolla á morgnana sem ég á eftir að sakna mikið. Það er margs að minnast, öll ferðalögin, skíðin, utanlandsferðirnar, sumarbústaðaferðir og svo má lengi telja. Mikið er ég þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman elsku Gullý mín. En nú ferð þú á vit okkar kæru foreldra og systkina sem vonandi eftir þér bíða.

Elsku Frank, Kata, Addi, Baddi og fjölskyldur, mínar hjartans samúðarkveðjur til ykkar allra og megi guð styrkja ykkur í sorginni.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Þín systir,

Björg Magnúsdóttir (Bjögga).

Það eru liðin 65 ár síðan ég sá í fyrsta sinn Guðlaugu Magnúsdóttur eða Gullý eins og hún var yfirleitt kölluð. Við vorum krakkarnir af Vatnsendahæðinni að bíða eftir skólabílnum fyrir neðan Miðbæjarbarnaskólann. Kemur þá Frank frændi minn þar siglandi með fegurðardísina Gullý sér við hlið. Frændi minn var þá þegar svo heillaður af þessari glæsilegu stúlku, að hann tók ekkert eftir mér, sem hann var þó vanur að gera. Sennilega hefur Frank verið að fylgja sinni heittelskuðu í Kvennaskólann, þar sem hún var við nám. Það var greinilega fast haldið hjá mínum manni, enda voru þau fljótlega trúlofuð og fylgdust svo að lífsbrautina, þar til nú að Gullý kveður. Þau voru ákaflega samheldin hjón. Keyptu sér fyrst fallega viðráðanlega íbúð, þar sem ég kom nokkrum sinnum og tók þá strax eftir hversu öllu var vel raðað innan veggja þar og húsgögnin smekkleg. Þegar árin liðu stækkuðu þau Frank og Gullý við sig og reistu sér veglegt raðhús á Seltjarnarnesi. Fyrstu ár hjúskaparins var Frank til sjós hjá skipafélaginu Hafskip en síðar vann hann til margra ára hjá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Gullý vann að skólagöngu lokinni í banka til margra ára en lauk sínum starfsferli hjá Reykjavíkurborg.

Það er eftirtektarvert hversu mikið listaeðli býr í börnum þeirra hjóna. Katrín Hall dóttir þeirra er þekkt víða um heim sem ballettmeistari en hafði dansað í frægum balletthúsum mest í Evrópu sem ballerína framan af ævi og þá yfirleitt sem sólódansari. Þeir bræður Frank og Bjarni Hall eru báðir tónlistarmenn og koma fram sem slíkir auk þess sem Frank fæst talsvert við að semja tónlist. Sumir segja að þessi listræna lína sé beint frá ömmu þeirra Katrínu Hall eldri, sem er fædd Hjaltested, en tvær systur hennar, þær Inga og Veiga, voru óperusöngkonur og bræður þeirra, Sigurður, Pétur og Jón, vel frambærilegir söngmenn. En Gullý heitin á ekki síður þátt í velgengni barna sinna hvað listina varðar, því Anna móðir hennar og pabbi minn, Ólafur Beinteinsson, sá þekkti söngkraftur og gítarleikari, voru þremenningar og við Gullý því fjórmenningar.

Við Frank höfðum talsverð samskipti á árum áður, en Frank var þá á kafi í hestamennsku og fórum við nokkrar ferðir ríðandi á góðum gæðingum austur fyrir fjall og riðum líka út frá bænum Fjalli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem við vorum í sveit sem ungir drengir. Eftir að Frank hætti í hestamennskunni sneri hann sér af fullum krafti að skíðaiðkun. Gullý heitin kona hans tók þátt í skíðasportinu með manni sínum og tengdust þau nokkuð Skíðadeild Víkings þar sem vinir þeirra blönduðu geði við þau í faðmi fjalla. Gullý átti líka margar góðar tryggar vinkonur úr Kvennaskólanum og svo var hún einnig vinsæl innan fjölskyldunnar. Það eru því örugglega margir sem óska Gullý góðrar heimferðar.

Við Dagný samhryggjumst Frank og börnum hans, mökum þeirra og nánustu ættingjum og vinum.

Drottinn blessi ykkur öll.

Ólafur Beinteinn Ólafsson og Dagný Elíasdóttir.