Halla Steingrímsdóttir fæddist 3. desember 1936 í Reykjavík. Hún lést 29. maí 2024 á Hrafnistu, Laugarási.

Foreldrar hennar voru Steingrímur Henriksson vátryggingarumboðsmaður og bóksali og eiginkona hans Anna Sigríður Sigurmundsdóttir húsmóðir og síðar gæslukona á Kleppsspítala. Halla var elst sjö systkina, hin eru Hanna, f. 6.7. 1936, d. 13.10. 1940, Guðný, f. 22.9. 1941, Erlendur, f. 2.4. 1945, d. 18.11. 2008, Áslaug, f. 2.6. 1946, Hanna, f. 10.9. 1952, og Sigrún, f. 12.6. 1954.

Maki I 9. ágúst 1958 Pétur Gautur Kristjánsson lögfræðingur, kennari og héraðsdómslögmaður, f. 14.7. 1934 á Seyðisfirði, d. 11.12. 1999. Þau skildu árið 1973. Börn þeirra eru: 1) Gylfi Gautur lögfræðingur, f. 23.1. 1956. Börn hans og fv. sambýliskonu Sólveigar Einarsdóttur eru Hildur Halla, f. 1978, og Ragnhildur, f. 1988. 2) Brynhildur upplýsingatæknifræðingur, f. 10.3. 1962. Eiginmaður Andrea Hörður Harðarson boðskiptafræðingur, f. 20.3. 1952. Börn þeirra eru Hörður Gautur, f. 1996, og Brynjar Gautur, f. 2004. 3) Gunnhildur Landsréttarlögmaður, f. 13.4. 1963. Sambýlismaður Guðmundur Már Kristinsson byggingartæknifræðingur, f. 3.1. 1962. Börn Gunnhildar og fyrrverandi sambýlismanns, Eyþórs Þormóðs Árasonar, eru Hjördís Halla, f. 1991, og Þórhildur, f. 1995. 4) Steingrímur Gautur kerfisfræðingur, f. 26.6. 1966. Eiginkona Guðríður Birgisdóttir viðskiptaráðgjafi, f. 13.10. 1966. Börn þeirra eru Egill Gautur, f. 1991, Halla, f. 1997, og Sigríður f. 2006. Barnabarnabörnin eru átta talsins.

Maki II 6. nóvember 1976 Stefán Gísli Sigurmundsson rekstrarstjóri hjá Orkustofnun, f. 12.12. 1936, d. 22.10. 1989. Börn Stefáns eru Gunnar Freyr, f. 1959, Stefán Gísli, f. 1964, Gísli, f. 1965, og Kristjana f. 1968. Barnabörn Stefáns eru 10 talsins og barnabarnabörnin fimm.

Á síðari árum var Halla í sambúð með Valdimar Einarssyni fyrrverandi skipstjóra, og áttu þau nokkur ár saman en hann lést árið 2006.

Halla starfaði hjá Verslanasambandinu og einnig nokkur ár á skrifstofu Eimskipa en mestan sinn starfsferil hjá Fiskveiðasjóði Íslands og síðar Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins þegar Fiskveiðasjóður var lagður niður. Þar starfaði hún þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Útför Höllu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 27. júní 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Halla amma.

Þú varst alltaf svo yndisleg, góðhjörtuð og glæsileg, dekraðir við okkur og fannst svo gaman að fá okkur í heimsókn.

Við eigum margar góðar minningar, sú sem stendur upp úr var að fara með þér á jólaböllin á Hótel Íslandi. Þetta fannst okkur svo skemmtilegt og biðum spennt eftir að þú sæktir okkur. Einnig ferðin í kringum landið með þér og afa og heimsóknirnar þar sem þú spilaðir við okkur og passaðir upp á að við færum nú ekki svöng frá þér.

Einnig þegar við vorum lítil, þá fórum við með ykkur afa að kaupa jólafötin á okkur og þú varst föst á því að við yrðum að vera eins klæddar (systurnar) og þegar nýtt skólaár var að byrja þá tókuð þið okkur í ísbíltúr og svo í Griffil að kaupa skóladót og ný skólaföt. Þetta eru margar góðar minningar sem við munum geyma í okkar hjarta.

Þó að samband okkar væri ekki mikið síðastliðin ár, þá þótti okkur ótrúlega vænt um þig.

Hvíldu í friði elsku Halla amma.

Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Elísabet Sara, Sandra Dröfn, Stefán Gísli og Andri Freyr.

Amma Halla var skrítin skrúfa, ekki svo hefðbundin kona frekar en aðrir í hennar fjölskyldu. En þannig fólk er best. Fólk sem má gera grín að og tala við án þess að þurfa að þykjast. Amma var þannig fólk. Það eru margir frasar frá ömmu sem við systur eigum sem eru ógleymanlegir og munu lifa með okkur (amma að saka Þórhildi um að klípa sig í IKEA, þegar hún stóð föst bak við baráttu Britney Spears fyrir sjálfræði og þegar hún bað sölumann á Spáni vinsamlegast að skíta á sig eftir að hann reyndi ítrekað að selja henni eitthvert skran).

Við leyfðum okkur oft að rugla aðeins í henni, ýta svolítið á takkana hennar og athuga viðbrögðin. Hún var svo furðulega skörp og náði alltaf „djókinu“, glotti eða hló með okkur. Einstaka sinnum setti hún fótinn niður ef við systur gengum of langt, en hún var aldrei lengi til baka.

Við fengum að fara með ömmu í seinustu utanlandsferðina hennar og það var náttúrulega sirkus, endalaust gert grín og ömmu rúllað í hjólastól. Amma vildi alltaf bara að Hjördís keyrði sig, allir aðrir svo miklir glannar, sérstaklega dætur hennar tvær, þær fengu sko ekki hjólastólavöld.

Föstudagskvöld í Hátúninu með „take away“ og Útsvars-sjónvarpsgláp var hefð hjá ömmu og Hjördísi árið sem Hjördís bjó á Grettisgötunni. Þær fengu sér lítinn dósabjór og horfðu á.

Þórhildur var síðar svo heppin að fá að búa með ömmu í nokkur ár. Hún um tvítugt og amma um áttrætt. Þær voru þarna tvær saman í Hátúninu, hvor á sínum kafla lífsins en mættust í miðjunni og voru hinir bestu sambýlingar. Þær pössuðu hvor upp á aðra á þann hátt sem þær kunnu og gátu og mikið sem Þórhildur er þakklát fyrir þessa lífsreynslu og að hafa fengið að kynnast ömmu í þessum kringumstæðum.

Það er vont að amma sé farin og sárt að takast á við þann ósigrandi gang tímans.

Hjördís Halla Eyþórsdóttir, Þórhildur Eyþórsdóttir.

Í mínum huga eru ömmur sérstakar manneskjur. Í veröld barnabarna sinna sjá þær ekki um hið hefðbundna uppeldi heldur eru til hliðar og geta vísað í réttar áttir og eiga þátt í félagsmótun þeirra. Sem barni leyfist manni oftast meira hjá ömmum en í foreldahúsum og þar var lífið með ömmu Höllu engin undantekning. Ég var líka eina barnabarnið hennar í 10 ár og fékk að njóta þess til hins ýtrasta.

Mér eru minnisstæðar sundferðir í Breiðholtslaugina, löngu áður en nokkur vatnsrennibraut sást hér á landi eða annað dót til að leika með í laugunum. Við amma syntum og fengum svo okkar skerf af þjóðmálunum í heita pottinum. Ég horfði á „Fyrirmyndarföður“ með henni þar sem hún þurfti að lesa textann fyrir mig, því ég var ekki nógu hraðlæs á hann og ekki kunni ég enskuna. Ég átti góðar stundir í leik með eggjabikarana með húfunum í skilrúminu sem skildi að eldhúsið og forstofuna á Seljabrautinni þar sem þau afi Stebbi bjuggu. Ég lék mér endalaust við ruggustólinn sem var í stíl við græna og vínrauða sófasettið og klemmdi mig of oft, þó svo að amma segði mér að passa puttana. Margar ömmur jafnaldra minna voru heimavinnandi en amma Halla var útivinnandi kona og ég man vel spennuna sem fylgdi því að heimsækja hana í vinnuna. Að fara upp með lyftunni í gamla Útvegsbankanum við Lækjartorg og fá að fikta í rauðu ritvélinni og þykjast vera „að vinna“. Fara svo út bakdyramegin með viðkomu í versluninni Víði á jarðhæðinni áður en haldið var heim á Seljabrautina. Amma hafði líka keypt handa mér upp úr pöntunarlista einhvers konar skjalatösku sem breyttist í skrifstofu þegar hún var opnuð. Þar var þó engin rauð ritvél, en ég æfði mig að svara í síma og taka skilaboð og „vinna“ rétt eins og ég horfði á hana gera. Seinna þegar ég var orðin ögn eldri kom ég stundum við í vinnunni hjá henni, gjarnan með vinkonu með mér, til að sýna þeim svona útivinnandi ömmur.

Þegar ég lít til baka, eins og fólk gerir þegar það missir einhvern nákominn, sé ég að amma hefur verið mjög sjálfstæð kona og þykir mér mikið til þess koma og vil meina að hennar sjálfstæði og annarra kvenna í fjölskyldum mínum hafi mótað mig. Hún var líka ótrúlega skemmtileg, hafði afskaplega smekklegan stíl og lagði mikið upp úr því að hafa snotra hluti í kringum sig, eins og skrautmuni, málverk og önnur listaverk. Hún gekk alltaf í fallegum fötum og henni fannst mikilvægt að hafa fallega skreytt veisluborð og falleg matarstell á borðum. Enda fór það svo þegar ég hóf búskap um aldamótin að henni fannst ekki neitt annað koma til greina en að ég eða við hjónin veldum okkur stell og svo gaf hún okkur ansi mörg jólin að gjöf inn í stellið. Þetta var hefð sem hún vildi halda í heiðri. Aldrei nokkurn tímann hefði mér dottið þetta sjálfri í hug, en uppi stöndum við nú með 12 manna matar- og kaffistell ásamt fylgihlutum sem borið er á borð í veislum og matarboðum.

Það eina sem öruggt er í þessum heimi er að öll munum við einhvern tímann ljúka þessari jarðvist. Tími ömmu rann upp núna í maí. Ég get því ekkert annað en þakkað fyrir allan þann tíma sem ég átti með henni og þær stundir sem við áttum saman. Alltaf mun ég hugsa til hennar með hlýhug og virðingu. Ég er óskaplega glöð að börnin mín þrjú höfðu öll tækifæri á að kynnast langömmu sinni og ná svo mörgum góðum árum með henni.

Hildur Halla Gylfadóttir.

Sæll elskan. Er ég að trufla? Hringdu aftur ef það hentar. Þannig byrjuðu símtölin, hún vildi ekki trufla.

Halla kom inn í líf mitt þegar ég var sjö ára gamall. Ég var ósáttur um hagi föður míns með nýrri konu fyrst um sinn, en Halla var fljót að vinna mig á sitt band. Kannski var ósættið vegna öfundar! Athyglin var ekki skilyrðislaust á mér, Halla átti nefnilega fjögur börn eins og pabbi. Þegar hjörðin mætti öll var kátt í kotinu, ef svo má að orði komast. Halla hélt utan um hópinn sinn eins og kostur var án internets og gemsa. Ég minnist orlofsferða, sérstaklega á Gjábakka á Þingvöllum. Þar gerðust mörg ævintýri, í Bláskógaheiðinni og hringum Hrafnagjá. Við vorum u.þ.b. 5-10 ára gömul. Ég hugsa til þessara ferða með hlýju. Halla var mjög hreinskilin, hún skóf ekkert af hlutunum, hún talaði umbúðalaust, án alls pjáturs. Tvisvar sinnum lenti okkur saman. Það sveið undan sannleikanum þegar maður fékk hann beint í andlitið! Hún þoldi ekkert hálfkák. „Hvaða rolugangur er þetta,” fékk maður framan í sig. Heiðarleiki hennar í samskiptum við mig bjó til djúpa vináttu og um tíma var hún minn helsti trúnaðarvinur! Ég held ég halli ekki á neinn þegar ég segi að hún var manneskjan sem jarðtengdi föður minn, með henni átti hann sín bestu ár! Mér fannst líka að Halla væri einskonar samnefnari fyrir systkini sín. Það gat verið margt í sunnudagskaffi og líf í umræðunum.

22. október 1989 var sem tíminn stöðvaðist þegar faðir minn dó, langt um aldur fram. Síðan eru liðin 35 ár. Tíminn líður á ógnarhraða. Halla var dugleg að hringja fyrsta veturinn í mig og fara yfir málin. Hún var auðvitað bara að hughreysta mig og halda utan um mig. Án hennar hefði þetta orðið mun erfiðari missir. Með árumun hefur dregið úr heimsóknum til ömmu Höllu, fólk fer í sínar áttir en alltaf var Halla heimsótt á aðventunni. Þá áttu þau bæði afmæli, hún 3. og pabbi 12. desember. Það skipti þá engu máli að hún byggi orðið um tíma með öðrum yndislegum manni, Valda, alltaf var farið á aðventunni til ömmu Höllu og stoppað í u.þ.b. þrjá tíma.

Tíminn geysist áfram og við börnin átta erum flest um sextugt. Í dag sum eldri, sum yngri, barnaskarinn orðin stór! Halla var þeim eiginleikum gædd að vilja flestum öðrum betur en sjálfri sér. Hún var sterkur karakter með góða nærveru. Ég votta afkomendum hennar mína dýpstu samúð og stórfjölskyldunni allri. Einnig votta ég systkinum mínum samúð og þeirra fjölskyldum.

Gísli Stefánsson.

Elskuleg tengdamamma mín, Halla Steingrímsdóttir, lést 29. maí síðastliðinn.
Ég var svo lánsöm þegar ég kom inn í fjölskylduna aðeins 15 ára gömul þegar við Steingrímur Gautur förum að vera saman, tengdamömmu fannst það ekkert mál og tók hún mér sem þriðju dótturinni.
Þegar tengdamamma varð sjötug bauð hún okkur stelpunum, mér, Brynhildi og Gunnhildi, til Kaupmannahafnar yfir langa helgi. Þar áttum við frábæra daga saman, röltum um borgina og kíktum í búðir. Við Brynhildur urðum viðskila við þær stöllur en við vorum ekki lengi að finna þær inni í skóbúð. Þar voru þær í essinu sínu að máta Prada- og Gucci-skó, drekka freyðivín og starfsfólkið allt að stjana við þær. Þetta var mjög skemmtileg og eftirminnileg ferð. Við borðuðum góðan mat og drukkum gott vín.
Það gladdi okkur fjölskylduna svo þegar hún gat verið hjá okkur um jól og áramót ótrúlega hress. Mikið fjör og fullt af pökkum, ekki gerðum við okkur grein fyrir því að þetta væru hennar síðustu jól og áramót með okkur.
Tengdamamma var ávallt glæsileg kona, fallega klædd og bar fallegt skart. Stelpurnar mínar Halla og Sigga töluðu alltaf um hvað amma Halla væri með flott skart enda falleg og smekkleg kona.
Elsku tengdó, ég veit að það verður vel tekið á móti þér í sumarlandinu.

En hamingjan geymir þeim gullkransinn sinn,

sem gengur með brosið til síðustu stundar

fær síðan kvöldroða á koddann sinn inn,

kveður þar heiminn í sólskini og blundar.

(Þorsteinn Erlingsson)

Elska þig, þín tengdadóttir,

Guðríður Birgisdóttir (Gauja).