Mundína Valdís Bjarnadóttir fæddist 2. apríl 1965. Hún lést 24. mars 2025.
Útför hennar fór fram 3. maí 2025.
Það var fjölbreyttur hópur sem hóf leikskólakennaranám við Fósturskóla Íslands haustið 1992. A-bekkurinn samanstóð af nemendum hvaðanæva af landinu og Mundý var einn þeirra. Hún kom langa leið að heiman frá Siglufirðinum sínum fagra enda leikskólakennaranámið eingöngu kennt á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma. Með okkur samnemendum tókust náin kynni og mikill vinskapur og hefur stór hópur okkar haldið sambandi allt frá útskrift 1995. Við kynntumst dóttur hennar, Tinnu, sem fylgdi móður sinni stundum með í Fósturskólann og höfum fylgst með því hvernig fjölskyldan stækkaði þegar Mundý og Mark eignuðust síðar Bjarna og tvær dásamlegar ömmu- og afastelpur. Engum dylst hversu samrýmd fjölskyldan er og hversu stolt Mundý var af þeim öllum. Við getum rétt ímyndað okkur hversu mikil súperamma hún hefur verið enda unnið með börnum í gegnum kennslu allt sitt fullorðinslíf.
Þó að Mundý kæmist ekki oft að hitta okkur gömlu bekkjarsystkini sín vegna fjarlægðarinnar var hún samt alltaf hluti af hópnum. Það var okkur mikið áfall að frétta af skyndilegum veikindum hennar og ótímabæru fráfalli. Þetta vorið eru 30 ár liðin frá útskriftardegi úr Fósturskólanum, skarð höggvið í hópinn og við minnumst hennar með miklum söknuði og hlýju. Mundý var einstök, með sína miklu útgeislun, hlýja nærveru, breiðasta brosið, glaðlyndi og söngelsku.
Við sendum fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur, hugur okkar er hjá ykkur, megið þið finna styrk í þessari miklu sorg.
Fyrir hönd samnemenda úr A – bekk Fósturskóla Íslands,
Anna Bjarnadóttir og
Þórunn Jóhannsdóttir.