Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Snjóflóð og skriðuföll hafa valdið mörgum slysum, stórfelldu efnahagslegu tjóni og margs konar röskun á mannlífi hér á landi allt frá landnámi. Frá upphafi 20. aldar hafa 226 látist í snjóflóðum og skriðuföllum, þar af 173 í snjóflóðum. Mannskaðasnjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974 og svo í Súðavík og á Flateyri 1995 sama ár ollu straumhvörfum í afstöðu Íslendinga til snjóflóðahættu. Síðan þá hefur verið unnið ötullega að uppbyggingu snjóflóðavarna og bættum viðbúnaði við snjóflóðahættu. Þetta kom fram á málþingi um snjóflóð og samfélag sem haldið var dagana 5.-6. maí á Vestfjörðum.
Kristín Martha Hákonardóttir, ofanflóðasérfræðingur og verkfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, segir að með þessu málþingi sé verið að ná saman mjög breiðum hópi sem hefur komið að snjóflóðum með ýmsum hætti, en það hafi ekki verið gert fram að þessu.
„Tilgangurinn er að ná samtali sem er ekki tæknilegs eðlis, heldur horfa til baka þar sem 30 ár eru síðan snjóflóðin féllu á Flateyri og Súðavík. Eftir þá atburði var regluverki í kringum þennan málaflokk algjörlega breytt.“
20 fyrirlesarar á málþinginu
Um 20 fyrirlesarar héldu erindi á málþinginu og segir Kristín að farið hafi verið yfir hvernig til hafi tekist og horft til framtíðar hvernig hægt sé að gera betur. Spurð hvernig staðan sé á snjóflóðavörnum núna 30 árum eftir atburðina fyrir vestan segir Kristín að nánast sé búið að setja upp varnir á þeim þéttbýlisstöðum sem kortlagðir voru í umfangsmikilli skýrslu um snjóflóðavarnir sem kynnt var 1996.
„Það er búið að byggja upp um 70% þeirra varna sem gert var ráð fyrir og mikil áhersla lögð á að ljúka þessum 30% sem eftir eru á næstu 5-10 árum. Það hefur verið unnið að endurgerð á mannvirkjum eins og á Flateyri þar sem flóðið 2020 fór yfir garðana og í höfnina. Ný tölvulíkön keyrð á alla garða sem hafa verið reistir og áhættan undir þeim endurmetin.“
Erindi Kristínar fjallaði um endurhönnun á varnargörðunum á Flateyri.
„Það hafa verið haldnar alþjóðlegar ráðstefnur tvisvar sinnum á Íslandi um tæknilega hönnun á varnargörðum en þetta málþing er annars eðlis því þetta er í fyrsta skipti sem við náum utan um breiðan hóp í samfélaginu,“ segir hún og nefnir sveitarfélög, almannavarnir, íbúa, fréttamenn, hjálparsveitir, Rauða krossinn, kvikmyndagerðarmenn og fólk sem hefur fjallað um þessi mál með mismunandi hætti.
Sjónum beint að samfélaginu
Á málþinginu var sjónum beint að samfélögum á hættusvæðum, öryggi á vegum, uppbyggingu á ofanflóðavörnum og þeim áhrifum sem sú uppbygging hefur haft á þróun byggða. Einnig var fjallað um endurskoðun á mögulegri hættu undir varnargörðum og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af snjóflóðunum sem féllu á varnargarða á Flateyri í janúar 2020, þar sem hluti flóðanna barst yfir garðana, og í Neskaupstað í mars 2023 þar sem snjóflóð lentu á varnargörðum og keilum.
Skoðunarferð um flóðasvæðin
Hluti af málþinginu var skoðunarferð til Flateyrar og Súðavíkur. Sagt var frá ofanflóðasögunni og uppbyggingu varnargarða undir Gleiðarhjalla og Seljalandshlíð. Vakin var athygli á Selabólsurð á Flateyrarvegi, þar sem fjöldi snjóflóða hefur fallið yfir veginn og sum út í sjó. Komið var við í Tungudal, sumarhúsasvæði Ísfirðinga, þar sem féll gríðarstórt snjóflóð 1994 sem eyðilagði hluta byggðarinnar. Það er rúmmálsmesta flóð sem hefur fallið á Íslandi.
Gengið var upp á varnargarðinn á Flateyri og skoðað hvar snjóflóðin fóru yfir garðana í janúar 2020 og sýnd endurhönnun varna. Komið var við á minningarreit um fórnarlömb snjóflóðsins 1995, þar sem Guðmundur Björgvinsson sagði frá snjóflóðinu og áhrifum þess á samfélagið.
Á Flateyri er byrjað á endurbótum á görðunum og framkvæmdir skoðaðar. Skoðaður var 20 metra hár varnargarður hjá fjallinu Kubba til varnar snjóflóðum og tveggja kílómetra stálgrindarvirki í fjallinu sem koma í veg fyrir að flóðin fari af stað. Einnig var Súðavík sótt heim og sagt frá uppbyggingu vegskápa við Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð og vegþils við gil í Súðavíkurhlíð. Í Súðavík var stoppað við minningarreit þar sem Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík, og Magnús Jóhannesson, fyrsti formaður Ofanflóðanefndar, ávörpuðu hópinn.
Snjóflóðahætta
Mannskaðar