Æskufélagar Ingi Þór og Benedikt hafa verið vinir í tæplega hálfa öld.
Æskufélagar Ingi Þór og Benedikt hafa verið vinir í tæplega hálfa öld.
Stjarnan úr Garðabæ og Tindastóll á Sauðárkróki keppa um Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki karla í körfuknattleik og þar kemst aðeins eitt að hjá öllum viðkomandi, að sigra. Meira að segja vinskapur Benedikts Guðmundssonar þjálfara Tindastóls …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stjarnan úr Garðabæ og Tindastóll á Sauðárkróki keppa um Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki karla í körfuknattleik og þar kemst aðeins eitt að hjá öllum viðkomandi, að sigra. Meira að segja vinskapur Benedikts Guðmundssonar þjálfara Tindastóls og Inga Þórs Steinþórssonar aðstoðarþjálfara Stjörnunnar verður að víkja, en þeir hafa verið bestu vinir í tæplega hálfa öld. Fyrsti leikur úrslitaviðureignar er í kvöld á Sauðárkróki.

Vinirnir fæddust 1972, ólust upp á Ásvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur, kynntust um fjögurra ára gamlir í fótbolta á Framnesvellinum og voru nær óaðskiljanlegir eftir það, voru saman öllum stundum í skóla og íþróttum, þar til Benedikt fór í skóla í Bandaríkjunum þar sem hann var einn vetur. Eftir að hann kom til baka 1992 byrjuðu þeir að þjálfa saman yngri flokka hjá KR, þeir hafa unnið saman sem þjálfarar meistaraflokksliða og yngri landsliða og eru margfaldir meistarar, saman og hvor í sínu lagi. Þeir hafa einu sinni áður mæst sem mótherjar þar sem annaðhvort var að duga eða drepast. Það var í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í desember 2012, en þá var Benedikt þjálfari Þórs í Þorlákshöfn og Ingi Þór þjálfari Snæfells í Stykkishólmi. Í apríl á sama ári mættust þeir í undanúrslitum Íslandsmótsins og þá hafði Þór betur.

Loka á samskiptin

Ingi Þór er sölustjóri hjá Tesa-límböndum og fagnaði 25 ára starfsafmæli í byrjun mánaðarins en Benedikt hefur lengi haft þjálfun að aðalstarfi. „Þegar við höfum hist með lið okkar á vellinum höfum við spjallað lauslega saman fyrir leik en síðan lokað á öll samskipti meðan á leik stendur,“ segir Ingi Þór. Þegar þeir voru í umræddum undanúrslitum með lið sín hafi þeir annars verið í mjög góðu sambandi, eins og alltaf, og unnið saman, leitað ráða hvor hjá öðrum og bætt hvor annan upp.

„Við höfum alltaf verið í miklu sambandi en þegar við mætumst á vellinum lokast á öll samskipti. Við viljum heldur ekki stuða hvor annan og í svona úrslitakeppni heyrist hvort eð er ekki neitt. Þetta er verkefni sem þarfnast óskertrar einbeitni. Menn eru í stríði. Eina hugsunin sem kemst að er að finna út hvernig sigra má andstæðinginn.“

Benedikt tekur í sama streng. „Það er undarleg tilfinning, skrýtið, að keppa við besta vin sinn á hæsta stigi, en þetta venst,“ segir hann. Leikmenn og þjálfarar komist ekki hjá því að mæta vinum sínum í keppni en hugsanlega sé tenging þeirra Inga Þórs meiri en gengur og gerist. „Við höfum verið vinir svo lengi, frá því við vorum fjögurra ára, og það hefur aldrei slest upp á vinskapinn. Ingi Þór er minn elsti og besti vinur og hefur oft reynst mér vel.“

Félagarnir leggja áherslu á að þegar öllu er á botninn hvolft sé þetta bara keppni og hún hafi ekki áhrif á vináttuna. „Við erum alltaf vinir, hvernig sem fer,“ segir Ingi Þór. „Auðvitað vonar maður að vini sínum gangi vel en vinskapurinn verður að víkja meðan á keppni stendur, því báðir stefna að sama marki, að sigra.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson