Viðmælandi þessa þáttar er Guðrún Hafsteinsdóttir. Guðrún tók við sem forstjóri Kjörís aðeins 23 ára að aldri eftir að faðir hennar Hafsteinn Kristinsson, sem hafði stofnað og stýrt fyrirtækinu, varð bráðkvaddur aðeins 59 ára að aldri. Guðrún þurfti að leggja allar fyrirætlanir um háskólanám til hliðar og takast á við þetta krefjandi verkefni. Guðrún ásamt systkinum sínum og móður ákváðu strax eftir fráfall Hafsteins að reka fyrirtækið í minningu hans. Kjörís hefur verið rekið í 50 ár sem fjölskyldufyrirtæki og hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir fagmennsku í rekstri, ráðdeild og vöruþróun. Árið 2010 var Valdimar bróðir Guðrúnar, sem nú er forstjóri Kjörís, valinn viðskiptamaður ársins af Frjálsri Verslun. Félagið hefur einnig hlotið verðlaun Ímark fyrir markaðssetningu, en Guðrún er í dag markaðsstjóri félagsins og einn af eigendum þess. Guðrún lauk háskólanámi í Mann- og kynjafræði árið 2008. Frá þeim tíma hefur Guðrún látið til sín taka í íslensku atvinnulífi. Hún segist þjást af formennskublæti. Guðrún er m.a. formaður Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Í viðtalinu fer hún yfir þær áskoranir og tækifæri sem iðnaður á Íslandi og lífeyrissjóðir landsins standa frammi fyrir. Guðrún gefur góð ráð varðandi hvernig fólk getur gripið þau tækifæri sem þeim gefst í lífinu og viðhorfi til vinnu og þátttöku í félagsstarfi. Guðrún hlaut aðalverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2017 fyrir sín störf. Hún segir í viðtalinu sína sögu sem er bæði áhugaverð og lærdómsrík. Njótið vel.
Guðrún Hafsteinsdóttir - Kjörísdrottningin frá Hveragerði