Gestur þessa þáttar, Jón Björnsson, hefur verið í leiðandi hlutverki við umbreytingu á tveimur stærstu smásölufyrirtækjum landsins, Högum og Festi. Á milli þessara krefjandi verkefna þá tók Jón að sér að snúa við rekstri á krúnudjásni danskrar verslunar Magasin du Nord. Jón hóf vinnu hjá dótturfyrirtækjum Haga árið 1996 og vann sig svo upp í fyrirtækinu og varð framkvæmdastjóri þess árið 2002. Hann lýsir þeim dýnamíska kúltúr sem varð til í fyrirtækinu sem hefur alið af sér margt besta rekstarfólk í smásölu á Íslandi. Eftir 10 mánaða umhugsunartíma tók Jón stökkið til Danmerkur árið 2005 og tók við sem forstjóri Magasin du Nord. Verslunarkeðjan Magasin sem stofnuð var 1868 mátti svo sannarlega muna fífil sinn fegurri enda þá verið rekin í samfelldu tapi í yfir 10 ár. Jón gaf Gullmundi okkar Guðmundssyni handboltaþjálfara lítið eftir í faglegum vinnubrögðum og náði undraverðum árangri að koma rekstri Magasin á réttan kjöl. Það tókst þrátt fyrir mikla mótvinda s.s. kreppuna 2009 og tíðar breytingar á eignarhaldi félagsins. Magasin veltir um 350 milljónum evra og þar starfa um 1500 starfsmenn. Jón flutti heim með fjölskyldu sinni árið 2013 og var skömmu síðar boðið tækifæri að verða forstjóri Festi hf. þegar nýir eigendur komu að því félagi. Þar leiddi hann ásamt góðu samstarfsfólki umbreytingu á rekstri félagsins og þá sérstaklega Krónunni og Elko þar sem veltan tvöfaldaðist. Kaupverð félagsins var 8,8 milljarðar en félagið var árið 2017 selt til N1 á 23,2 milljarða króna. Ekki amarlegur árangur það! Jón er gjafmildur á þekkingu sína og deilir því hvernig hann hefur þróast og þroskast á sinni vegferð í viðskiptum. Njótið vel