Gestur þessa þáttar er Hjálmar Gíslason. Hann hefur stofnað fimm fyrirtæki á Íslandi. Fyrstu tvö þeirra Lon&Don og Maskína runnu saman við önnur fyrirtæki. Það þriðja Spurl.net var keypt af Já hf. sem var dótturfyrirtæki Símans hf. á þeim tíma. Það fjórða Datamarket var svo selt til erlenda fyrirtækisins Qlik á 1,6 milljarð króna. Sú sala var valin viðskipti ársins af Fréttblaðinu árið 2014. Í viðtalinu fer Hjálmar yfir alla þessa sögu og deilir því helsta sem hann hefur lært á leiðinni. Við ræðum m.a. um mikilvægi sölu- og markaðsmála fyrir fyrirtæki og hvernig verðandi frumkvöðlar ættu að prófa sínar hugmyndir. Eftir 3 ár hjá Qlik er Hjálmar núna kominn aftur af stað með stofnun síns fimmta fyrirtækis GRID. Það hefur þegar tryggt sér öflugt teymi starfsmanna og $4,5 milljónir í fjármögnun frá virtum erlendum og innlendum fjárfestum. Hjálmar deilir með okkur sínum brennandi áhuga á gagnagreiningu og hvar hann hefur séð tækifæri í gegnum tíðina að gera betur í þeim efnum. Þess má geta að Hjálmar fékk þann skemmtilega titil nörd ársins af upplýsingatæknifyrirtækinu Skýrr árið 2011. Loks ræðum við ýmislegt efni sem hefur haft mótandi áhrif á hann. Njótið vel