Margrét Lóa Jónsdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir handritið Pólstjarnan fylgir okkur heim. Margrét Lóa er Reykvíkingur, fædd 1967 og enginn nýgræðingur í ljóðaútgáfu landsins, hún gaf út sína fyrstu ljóðabók Glerúlfa árið 1985 og síðan þá hefur hún gefið út 11 ljóðabækur. Við ræðum við verðlaunaskáldið um nýju bókina, innblástur og ljóðalestur.
Heil öld er frá útgáfu Bréfs til Láru eftir Þórberg Þórðarson, bók sem hristi svo hressilega upp í íslenskum bókmenntum að við erum enn að horfa á ofanfallið. Forlagið var að endurútgefa þessa áhrifamiklu bók Þórbergs og það er Soffía Auður Birgisdóttir sem skrifar inngang og skýringar við hitt og þetta sem Þórbergur minnist á eða vísar í.
Við heyrum af nýrri bókaútgáfu, Þúfunni sem stofnað var af vinkonunum Þórdísi Þúfu Björnsdóttur, Mörtu Guðrúnu Jóhannesdóttur, Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Elín öglu Briem. Fyrsta bókin sem Þúfan sendir frá sér er Þín eru sárin eftir Þórdísi Þúfu, einlæg og ögrandi saga byggð á erfiðri reynslu Þórdísar, sem setur hana saman í skáldævisögulega frásögn og sér speglun í atburðum fortíðar. Þórdís Þúfa og Kristín Björk koma í heimsókn segja frá bókinni og Þúfunni.
Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Rainfall - Caoilfhionn Rose, Changing Winds - Alexandra Stréliski, Draumalandið - Einar Scheving.
Viðmælendur: Margrét Lóa Jónsdóttir, Þórdís Þúfa Björnsdóttir, Kristín Björk Kristjánsdóttir og Soffía Auður Birgisdóttir.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson
Tómasarverðlaunin, Þúfa og Þín eru sárin, Bréf til Láru 100 ára