Í þessum þætti lítum við aðeins yfir farinn veg og fjöllum um lestur og bækur almennt. Tökum stöðuna, nú á áramótum. Við rifjum upp umfjallanir úr þáttum ársins þar sem sagt var frá lestri yngri kynslóðanna og bókaáhrifavöldum á samfélagsmiðlum. Eru þetta einfaldlega tískutrend eða almennilegar umræður um bókmenntir? Eru þetta bækur sem stóru útgefendurnir í Ameríku eru að ýta að fólki eða eitthvað sem fólk grefur örlítið meira til að finna.
Á fyrrihluta ársins grúskuðum við í Góða hirðinum og kynntumst hugtakinu bókasóun. Nytjamarkaðir eru að fyllast af gömlum bókum því fólk grysjar bókahillurnar heima, vill ekki bækur eða það er bara nóg um og heilu dánarbúin enda stundum á haugunum. Og hvað svo? Inn á milli geta leynst faldar perlur í hillunum ef enginn fer í gegnum þetta, áritaðar, fágætar eða merkilegar útgáfur sem fara í urðun. Það þarf að ráða bókmenntafræðinga á Sorpu sagði Fríða Þorkelsdóttir bókmenntafræðingur og safnari sem komst í fréttir þegar hún keypti ljóðabók á klink í hirðinum sem hefði undir venjulegum kringumstæðum átt að kosta tugi þúsunda.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson
Samantekt: Bókmenntir á samfélagsmiðlum og Bókasóun