Bara bækur

Bara bækur

Við hringjum norður á Siglufjörð í Sæunni Gísladóttur sem gaf út fyrr á þessu ári skáldsöguna Kúnstpásu. Þetta er saga tveggja kvenna frá mismunandi tímum, 2020 og 1930. Þetta er sveitarómans, ástarsaga mætti segja, bók um að standa frammi fyrir áskorunum. Og áskoranirnar eru alltaf þær sömu virðist vera. Tímarnir breytast en mennirnir ekki með. Sæunn segir betur frá. Og talandi um tímann, þann mikla stýrimann í lífi okkar. Sjálf klukkan eða hvernig sem við sjáum tímann fyrir okkur. Hann þeytist áfram í óvissu en býr um leið til vissu um hið liðna. Er hættulegt að rómantísera hið liðna? Það er hægt að vopnvæða nostalgíu. Verðlaunaskáldsagan Tímaskjól var að koma út á íslensku eftir búlgarska rithöfundinn Georgei Gospodinov. Þetta er frábær skáldsaga sem hlaut alþjóðlegu Booker verðlaunin 2023. Þetta eru djúpkafarabókmenntir sem kafa inn að kjarna mennskunnar, úr hverju erum við, hvenær erum við, hvað eru minningar? Þetta er saga um nostalgíu, gleymsku og að mörgu leyti vísindaskáldsaga í anda Kurt Vonnegut sem spyr stórra spurninga. Heyrum brot og ræðum við þýðendurna, Vesku A. Jónsdóttur og Zophonías O. Jónsson sem þýddu saman úr búlgörsku. Í lokin veltum við fyrir okkur bókmenntaverðlaununum. Í Skáldu bókabúð var haldið lítið málþing með þremur erindum. Fáum tvo þeirra hingað í hljóðstofu og heyrum aðeins hvað þeir voru að pæla, það eru þeir Jón Yngvi Jóhannsson og Ægir Þór Jänkhe. Þriðja erindið flutti Soffía Auður Birgisdóttir. Viðmælendur: Sæunn Gísladóttir, Veska A. Jónsdóttir, Zophonías O. Jónsson, Ægir Þór Jänkhe og Jón Yngvi Jóhannsson. Tómas Ævar Ólafsson las úr Tímaskjóli. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

Kúnstpása, Tímaskjól, alþjóðlegu Booker og gildi bókmenntaverðlaunaHlustað

24. maí 2025