Ofbeldi teygir sig víða og hefur margvíslega birtingamyndir, ofbeldi í nánu sambandi er oft mjög lúmskt og getur læðist aftan að fólki jafnvel þannig að það átti sig ekki á því. Við tölum um algengar tegundir ofbeldis, svo sem líkamlegt, andlegt, kynferðislegt- , fjárhagslegt og stafrænt ofbeldi. Gestur okkur að þessu sinni er Hrönn Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur en hún var verkefnastjóri neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis frá árinu 2016 til síðustu áramóta. Ofbeldi er grafalvarlegur hlutur og er aldrei í lagi. Í þættinum ræðum við marga anga ofbeldis og Hrönn bendir á ýmiss úrræði í boði fyrir bæði þolendur og gerendur ofbeldis. Mikilvægast af öllu er það ef þú telur öryggi þínu ógnað á einhvern hátt þá er Neyðarlínan, 112, alltaf til staðar fyrir þig. Önnur úrræði sem nefnd eru í þættinum eru til dæmis Bjarkahlíð í Reykjavík og Bjarmahlíð á Akureyri, verkefnin „Heimilisfriður“ og „Taktu skrefið“. Einnig viljum við minna á Kvennaathvarfið, Stígamót og vinalínu Rauðakraossins. Í þættinum minnir Hrönn okkur á að það sé von! Það er alltaf von. Það er mikilvægt að umvefja sig fólki sem maður treystir. Stundum þurfum við einhvern traustan utanaðkomandi eðila eða vin til að leiðrétta kompásinn okkar, því það getur margt komið upp á í lífinu eða sambandi sem skekkir sýn okkar á eigin aðstæður.— Okkur þætti vænt um ef þú myndir láta aðra vita af þáttunum okkar og myndir fylgja okkur á samfélagsmiðlum. Þú finnur okkur sem “heilsumal” á Facebook og Instagram.
Ofbeldi - birtingamyndir og úrræði - Hrönn Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur