Heimsglugginn

Heimsglugginn

Bogi Ágústsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu stöðu alþjóðamála í upphafi nýs árs. Bogi sagði að ekki yrði sagt að 2024 hafi verið gott ár á alþjóðavettvangi: í kosningum fengu popúlskir flokkar víða byr í seglin, umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna skilaði engu og stór hluti heimsins virðist kæra sig kollóttan um sífellt hættulegri hamfarahlýnun. 2024 er heitasta ár sem hefur mælst og það berast æ oftar tíðindi af ýmsum öfgafyrirbærum í veðri, illviðrum, flóðum og þurrkum. Þau ræddu horfur fram undan, óvissu um stefnu Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, bæði í innanríkis- og utanríkismálum sem hefði mikil áhrif á þróun mála í heiminum öllum. Undir lokin ræddu Þórunn og Bogi stöðu Íslands og mat breska tímaritsins The Economist á þróun efnahagsmála. Blaðið birti um áramót töflu þar sem ritstjórn þess metur hvaða lönd stóðu sig best á síðasta ári. Spánn, Írland, Danmörk, Grikkland og Ítalía eru í efstu sætunum á lista blaðsins. Metnir voru þættir á borð við breytingar á þjóðarframleiðslu, hlutabréfaverði, verðbólgu og þróun atvinnuleysis. Samkvæmt þessum mælikvörðum tímaritsins er Ísland í 14. sæti, milli Svíþjóðar og Lúxemborgar. Bandaríkin eru í 20. sæti en Bretland í 31. sæti. Þetta er ekki yfirlit um ástandið heldur breytingar, þegar auðlegð þjóða er metin er Ísland í sjöunda sæti yfir ríkustu þjóðir heims.

Óvissa í alþjóðamálum í upphafi nýs ársHlustað

02. jan 2025