Í yfir 50 ár hefur Eddie Kramer sett fingraför sín á sögu rokksins sem um munar, enda unnið með nokkrum af stærstu nöfnum þessarar sögu. Má þar nefna; The Rolling Stones, Eric Clapton, David Bowie, Bad Company, The Beatles og svo miklu, miklu fleiri. Kramer er þó hvað þekktastur fyrir þrjú langtímasambönd sín hvað upptökur varðar. Langtímasambönd við Jimi Hendrix, Led Zeppelin og okkar menn í KISS. Eddie Kramer fæddist í Cape Town í Suður-Afríku þann 19.apríl árið 1942 og er hann því nýorðinn 80 ára gamall. Eftir að Eddie flutti til London frá heimalandinu snemma á sjöunda áratugnum hóf hann sinn afar farsæla upptökuferil og starfaði hann fljótlega í nokkrum af þekktustu hljóðverum borgarinnar þar sem hann tók upp fjöldan allan af hljómsveitum sem við þekkjum svo vel, eins og t.d Jimi Hendrix. Það var svo árið 1968 að Kramer færði sig vestur um haf og til Bandaríkjanna þar sem hann hóf störf hjá Record Plant hljóðverinu í New York og hélt áfram að vinna með Jimi Hendrix o.fl. Árið 1969 tók Eddie svo að sér að velja inn tækjabúnað í hljóðverinu sem Hendrix vinur hans var að setja upp, Electric Lady, og starfaði hann þar sem upptöku og tæknistjóri næstu árin, en það var einmitt þar sem okkar menn í KISS koma inn í myndina. Eddie hefur tekið upp mikið af lifandi tónlist á ferlinum og ber þar helst að nefna ALIVE plötur KISS auk sjálfrar Woodstock hátíðina, en hana tók hann nánast alla upp, grunlaus um söguna sem hann var þá að hljóðrita. Við fögnum afmælinu með Eddie f#$%ing Kramer í þessum þætti og kíkjum saman á viðburðaríkan og frekar flottan feril hans. Hosted on Acast. See acast.com/privacy for more information.