Árið er 1985 og Paul situr í bílstjórasætinu eins og nokkur fyrri árin og stýrir rútunni. Uppstillingin á KISS virðist vera tiltölulega laus við allt rugl og drama fyrir utan það að Gene hefur ekki mikinn tíma fyrir hljómsveitina, enda á fullu að reyna fyrir sér við kvikmyndaleik. En tilkoma Bruce Kulick í bandið gefur þessu ákveðna ró enda hafa verið vandræði á gítarleikarastöðunni allt frá brotthvarfi Ace Frehley. Ekki dugði Vinnie Vincent lengi eða hvað þá Mark St. John. En KISS mættu í hljóðverið þarna um sumarið til að taka upp sína 13. breiðskífu. Þetta var jafnframt fyrsta plata þeirra með þessum nýja gítarleikara sem lét svo vel af stjórn og gerði bara það sem honum var sagt og mætti þar sem hann átti að mæta. Glysrokkið er þarna auðvitað allsráðandi á þessum árum og það smitaðist vel inn á þessar upptökur okkar manna, eðlilega. Platan ASYLUM kom svo út þann 16.september þetta ár, 1985. Í þættinum gerum við henni skil og förum yfir lögin eins og okkur er einmitt lagið. Hosted on Acast. See acast.com/privacy for more information.