Okkar menn hafa gefið út fjölmargar safnplötur í gegnum árin og þá oft til að halda lífi í glóðinni þegar engin er breiðskífan sem fylgja skal eftir. Þá hafa nokkrum sinnum verið sett ný lög inn á þessar plötur eða jafnvel nýjar upptökur af eldri lögum. Væntanlega hefur það verið gert til að auka söluna eða þá til að freista þess að koma nýjum afurðum á vinsældalistana víðsvegar um heiminn. Hér má nefna plöturnar „Double Platinum“ sem kom út árið 1978 á milli „Love Gun“ og „Dynasty“, „KILLERS“ frá árinu 1982 sem kom út á milli „Music From The Elder“ og „Creatures Of The Night“ og loks „Smashes, Trashes & Hits“ sem kom út þarna á milli „Crazy Nights“ og „Hot In The Shade“ árið 1988, bara rétt rúmlega tveimur mánuðum á eftir tónleikum okkar manna í Reiðhöllinni í Víðidal, og sléttum 10 árum eftir fyrrnefnda plötu „Double Platinum“. Í þessum þætti kíkjum við á þau lög sem ekki komu út á eiginlegum breiðskífum og gefum þeim einkunn að vanda. Við getum ímyndað okkur plötu þáttarins að þessu sinni, hún gæti allt eins borið heitið „Killers, Platinum & Hits“. Góða skemmtun! Hosted on Acast. See acast.com/privacy for more information.