Við bjóðum velkomna Margréti Dóru Ragnarsdóttur sem alltaf er kölluð Magga Dóra. Hún lauk grunnnámi í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi í tölvunarfræði frá sama skóla árið 2003. Hún á að baki fjölbreyttan starfsferil bæði hér á landi og í Bandaríkjunum og starfaði meðal annars hjá hönnunarstofunni Mad*Pow í Boston í 6 ár við notendarannsóknir og stafræna vegferð stórra fyrirtækja. Á Íslandi starfaði Magga Dóra m.a. fyrir OZ og Símann ásamt því að vera aðjúnkt við Háskóla Íslands. Í dag rekur Magga Dóra fyrirtækið Mennska ráðgjöf, þar sem öll verkefni eru unnin út frá sjónarhóli þess sem verður fyrir áhrifum tækninnar, meðfram því að kenna þjónustu- og upplifunarhönnun við tölvufræðideild Háskólans í Reykjavík.
Í þættinum ræða Hildur og Magga Dóra meðal annars:
Bankastýrudrauma bernskunnar
Hvað varð til þess að hún valdi að fara í sálfræði og hvernig það nám hefur verið góður grunnur fyrir allt sem á eftir kom
Hvernig tölvunarfræðin og sálfræðin spiluðu saman og nördinn fékk að blómstra
Tímann og „meistaranámið“ hjá OZ og þau öguðu vinnubrögð sem voru viðhöfð hjá fyrirtækinu
Hvað það er gefandi að kenna og kveikja áhuga nemanda
Árin og verkefnin hjá Mad*Pow og lífið í Boston
Verkefnið MPACT og hvernig þau unnu borðspil sem hjálpaði fyrirtækjum að vinna með persónur til að nota í hugbúnaðarþróun
Stofnun Mennskrar ráðgjafar, sérhæfingu fyrirtækisins og þau fjölbreyttu verkefni sem fyrirtækið er að sinna
Hvað það er gefandi að hafa jákvæð áhrif á umhverfið í kringum sig með tækni
Ákvörðunina um hætta að tala um að hafa „brjálað að gera“- að hafa frelsi til að sinna fjölskyldu og vinum en sinna á sama tíma gefandi verkefnum
Hvað það er nærandi að spila skrafl, fara á tónleika og í leikhús og hitta góða vini
Þátturinn er í boði: Geko, Taktikal og Tern Systems