Í þessum þætti bjóðum við velkomna Adeline Tracz. Adeline er rafmagnsverkfræðingur að mennt og hefur búið og starfað á Íslandi frá árinu 1996 þegar hún réði sig sem verkfræðingur til bandaríska fyrirtækisins Conexant sem hafði útibú á Íslandi. Þar starfaði hún í áratug en réði sig næst til Kögunar eftir stutt stopp hjá Amadeus í Frakklandi. Hjá Kögun, sem seinna varð að Advania, vann hún sem forritari fyrir fyrirtæki eins og Icelandair og Landspítalann, þangað sem hún réði sig að lokum sem verkefnastjóri árið 2019. Frá því í fyrra hefur hún starfað á Landspítalanum sem verkefnastjóri nýþróunar á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild spítalans. Þar hefur hún umsjón með stafrænum leiðtogum og hópi verktaka sem takast á við nýsköpunar og nýþróunar verkefni í nýþróunareiningu deildarinnar.
Í þættinum ræða Hildur og Adeline meðal annars:
Hvernig pabbi hennar hvatti hana áfram sem barn og lagði fyrir hana þrautir
Undirbúninginn og námið í Supélec, einum virtasta verkfræðiskóla Frakklands
Námsárin í París og allt það sem hún gerði meðfram náminu eins og að kenna föngum, taka þátt í leikriti, spila á píanó og læra arabísku
Árin sem hún starfaði hjá Conexant og hugbúnaðinn sem fyrirtækið þróaði
Nýsköpun og tækniframfarir á Landspítala og hvernig hugmyndaflug, kjarkur og auðmýkt spilar þar stórt hlutverk á þessum stærsta vinnustað landsins
Skáldskapinn, smásagnasafnið Fulgurances sem kom út árið 2018 og hvernig hún sinnir ritlistinni á móðurmálinu á kvöldin
12. Adeline Tracz, verkefnastjóri nýþróunar á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala