"Geðvarpið" er ný sjálfstæð þáttasyrpa innan Hlaðvarps Landspítala. Stjórnandi syrpunnar er hjúkrunarfræðingurinn dr. Helga Sif Friðjónsdóttir. Viðmælandi Helgu Sifjar að þessu sinni er Rósa María Guðmundsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun og hjúkrunar- og teymisstjóri geðheilsusviðs Reykjalundar.Að loknu stúdentsprófi fór Rósa María í Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan í janúar 1982. Það árið starfaði hún á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut, en færði sig svo á deild 32C sem þá var bráða- og móttökugeðdeild. Samhliða tók hún vaktir á hinum ýmsu deildum sem tilheyrðu geðsviði Landspítala og kynntist því vel starfseminni á þeim árum. Haustið 1990 hóf Rósa María síðan störf á Reykjalundi þar sem hún hefur starfað að mestu óslitið síðan. Fyrstu árin vann Rósa María á blandaðri deild, en lengst af frá þeim tíma á geðheilsusviði Reykjalundar. Undanfarin tólf ár hefur hún verið hjúkrunar- og teymisstjóri geðheilsusviðsins.Samhliða vinnu sinni hjá Reykjalundi lauk Rósa María BS-prófi við Háskóla Íslands árið 2001 og meistaraprófi í geðhjúkrun árið 2007. Gegnum tíðina hefur hún lært og tileinkað sér ýmis sálræn meðferðarform og má þar nefna hugræna atferlismeðferð (HAM) og klíníka dáleiðslu. Rósa María hefur skrifað greinar, leiðbeint og meðal annars verið með fræðslu um endurhæfingarhjúkrun, HAM og meðferðarform sem stuðla að von. Einnig hefur hún setið í ýmsum nefndum og ráðum.Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptadeild Landspítala sem heldur úti Hlaðvarpi Landspítala og þeim sjálfstæðu þáttasyrpum sem tilheyra hlaðvarpsfjölskyldu spítalans. SIMPLECASThttps://landspitalihladvarp.simplecast.com/episodes/gedvarpid-06
GEÐVARPIÐ // Rósa María Guðmundsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun