"Geðvarpið" er ný sjálfstæð þáttasyrpa innan Hlaðvarps Landspítala. Stjórnandi syrpunnar er hjúkrunarfræðingurinn dr. Helga Sif Friðjónsdóttir. Í þessum fimmta þætti fær Helga Sif til sín geðhjúkrunarfræðinginn Guðbjörgu Sveinsdóttur, sem hefur fjögurra áratuga reynslu af faginu með sérstaka áherslu á samfélagstengda geðhjúkrun af ýmsu tagi. Helga Sif ræðir við Guðbjörgu um bakgrunn hennar og víðtæku reynslu af störfum, hér heima og víða erlendis.Guðbjörg Sveinsdóttir hefur starfað við geðhjúkrun í liðlega 40 ár, en hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 1978 og hóf störf í geðhjúkrun ári síðar. Sérhæfinguna kláraði Guðbjörg svo með formlegum hætti úti í Noregi fyrir 30 árum. Hún á að baki afskaplega fjölbreyttan og gifturíkan feril í faginu. Byrjaði reyndar í skurðhjúkrun á Borgarspítala, en skipti fljótlega um takt og starfaði meðal annars hjá flestum forverum Landspítala og spítalanum eftir stofnun hans um aldamótin. Einnig hefur hún tekið drjúga spretti í faginu í Noregi, hjá Heilsugæslunni, Rauða krossinum og víðar. Í dag starfar hún að verkefni fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við framþróun geðhjúkrunar á sviði heimahjúkrunar.Víðfeðm sérþekking Guðbjargar á geðhjúkrun hefur leitt hana víða, en hún hefur meðal annars verið ráðgjafi í geðhjúkrun í Banglades, Hvíta-Rússlandi, Rúmeníu, Palestínu, Indónesíu, Íran, Írak, Kósovó og Makedóníu. Jafnframt hefur Guðbjörg verið þátttakandi og fyrirlesari á alþjóðlegum fundum, námskeiðum og ráðstefnum svo áratugum skiptir. Hún hefur frá upphafi ferilsins verið virkur þátttakandi í fræðslu, menntun og þjálfun á sviði geðhjúkrunar, hér heima sem erlendis.Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptadeild Landspítala sem heldur úti Hlaðvarpi Landspítala og þeim sjálfstæðu þáttasyrpum sem tilheyra hlaðvarpsfjölskyldu spítalans. SIMPLECASThttps://landspitalihladvarp.simplecast.com/episodes/gedvarpid-05
GEÐVARPIÐ // Dr. Helga Sif ræðir við geðhjúkrunarfræðinginn Guðbjörgu Sveinsdóttur