Það hyllir undir starfsloka-aldurinn hjá Þórönnu Margréti Sigurbergsdóttur, en hún hefur mikla sögu að segja af ferðum sínum og áföllum lífsins, þar sem trúin hefur oftar en ekki verið henni haldreipi. Hún og eiginmaður hennar Steingrímur Ágúst Jónsson hafa búið í Vestmannaeyjum frá því skömmu eftir gos. Þau sinna í dag ýmsum hugðarefnum, svo sem hjálparstarfi í Afríku og því að miðla af reynslu sinni og lífsgleði, og traustinu sem þau bera til Drottins í sínum raunum. Þóranna er ein höfunda bókarinnar Móður, missir, máttur - en þar fjallar hún ásamt tveimur öðrum konum um reynsluna af því að missa uppkomna syni, en sonur hennar Sigurjón Steingrímsson lést í umferðarslysi árið 1996, þá sautján ára gamall. Um það leyti sem bókin átti að koma út árið 2016 þá varð annar sonur hennar, Ríkarður, bráðkvaddur í sumarleyfisferð í tilefni af fertugsafmæli sínu. Ungur og hraustur lögreglumaður með unga fjölskyldu sína. Þóranna ræðir við Bolla og Ásu um það að missa móðinn og finna máttinn á ný. Njótið.