Það versta sem við getum gert þegar okkur líður illa er að einangra okkur því grunnuppspretta öryggis mannskepnunnar er góð tengsl við annað fólk og við fjarlægjum okkur frá þessari grunnuppsprettu ef við einangrum okkur heima. Þetta segir Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur sem segir tækni og samfélagsmiðla geta gert öllum kleift að vera í góðu sambandi við sína nánustu. Hann gefur okkur góð ráð um hvernig við getum hugsað okkur út úr kvíðaástandi vegna yfirstandandi heimsfaraldurs eða annarra ástæðna. Til eru mörg ráð við kvíða og lykilatriði er að þekkja hann og láta hann ekki ná tökum á sér. Helga Arnardóttir ræðir við Guðbrand um heilsukvíða, efnahagskvíða og hvers kyns kvíðaástand sem herjar á fólk á þessum skrýtnu tímum.
Sjónvarp Símans styrkir þessa þáttaröð en báðar sjónvarpsþáttaraðir af Lifum lengur eru sýndar hjá Sjónvarpi Símans Premium. Fyrsta þáttaröðin fjallar um fjóra lykilþætti heilsu; næringu, hreyfingu, andlega heilsu og svefn. Sú seinni fjallar um langlífustu þjóðir heims á svokölluðu Bláu svæðunum þar sem Helga Arnardóttir heimsækir langlífa bæði erlendis og hér á landi og kafar ofan í leyndarmál langlífis.