Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var tónlistarmaðurinn Grétar Örvarsson. Hann þekkja auðvitað flestir úr hljómsveitinni Stjórninni þar sem hann og Sigga Beinteins hafa sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar, til dæmis í Eurovision og mun víðar. Við fórum með honum aftur í tímann á æskuslóðirnar á Höfn í Hornafirði, þar sem hann ólst upp á heimili ömmu sinnar og afa. Hann sagði til dæmis sögur af því þegar heimilið breyttist í fæðingarheimili, því amma hans var ljósmóðir og svo þegar hann byrjaði að spila fyrir dansi fimmtán ára á hótelinu á Höfn. Við fórum á handahlaupum með honum í gegnum lífið til dagsins í dag en hann stendur fyrir tónleikum eftir viku í Salnum í Kópavogi undir nafninu Sunnanvindur - eftirlætislög Íslendinga.
Sigurlaug Margrét var svo auðvitað með okkur í matarspjallinu og í dag, í upphafi sumars, töluðum við um kjúklingarétt með sólþurrkuðum tómötum, og hægeldaðan lambabóg úr smiðju Yotam Ottolenghi.
Tónlist í þættinum í dag:
Ég er kominn heim / Óðinn Valdimarsson (Imre Kálmán, texti Jón Sigurðsson)
Eina nótt (láttu mjúkra lokka flóð) / Grétar Örvarsson (Kris Kristofferson, texti Jónas Friðrik Guðnason)
Sumarlag / Stjórnin (Eyjólfur Kristjánsson, texti Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Grétar Örvarsson föstudagsgestur og sumarmatarspjall