Strandlengja Íslands er 5000 kílómetrar að lengd og stjórnvöld hafa síðastliðin fjögur ár unnið að því að hreinsa hana með markvissum hætti. Fyrirtækjum og félagasamtökum býðst að sækja um styrk til þess að taka að sér ákveðinn hluta strandlengjunnar, ganga fjörur og tína netadræsur og annað plastrusl. Átakið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum og nú er lokaár þess runnið upp. Hvernig hefur gengið? Við ætlum að ræða það við Sóleyju Bjarnadóttur, sérfræðing í Teymi hafs og vatns hjá Umhverfis- og orkustofnun.
Í dag halda Stígamót upp á 35 ára afmæli, og af því tilefni er ýmislegt spennandi á döfinni: málþing, bíósýningar og ýmislegt fleira. Í dag förum við aðeins yfir þriggja og hálfs áratuga baráttu Stígamóta gegn ofbeldi, hugum jafnvel að framtíðinni í þeim málum, og fáum til okkar Drífu Snædal, talskonu Stígamóta, og Parísi Önnu Bergmann, unga baráttukonu gegn ofbeldi.
Edda Olgudóttir kemur svo til okkar í vísindaspjall í lok þáttar. Þar verða krúttleg dýr í fyrirrúmi, krúttleg dýr í krísu.
Strandlengja Íslands, barátta gegn ofbeldi og tilvistarkrísa kóalabjarna