Við verðum á vísindalegum nótum í þætti dagsins og byrjum á að ræða um helín – eða helíum – lofttegund sem við þekkjum einna helst úr sautjánda-júní-blöðrum en gegnir einnig mikilvægu hlutverki í læknavísindum og vísindarannsóknum á hinu og þessu. En notkun okkar á þessari gastegund er langt umfram framleiðslu – þetta er takmörkuð auðlind sem við göngum á og erum mjög léleg í að endurnýta. Ágúst Kvaran, prófessor emeritus í eðlisefnafræði, kíkir í heimsókn hér í upphafi þáttar, segir okkur frá þessari gastegund og hvort við gætum einfaldlega klárað allt þetta helíum.
Og síðan fáum við loftslagsspjall. Arnhildur Hálfdánardóttir fær til sín Halldór Björnsson, fagstjóra veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands til að ræða aðför að loftslagsvísindum og vísindastofnunum í Bandaríkjunum.