Sífellt kemur betur í ljós að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stefnir á stórfelldar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi líst ekki á stöðuna. Hún er gestur Spursmála þennan föstudaginn ásamt Ernu Björgu Sverrisdóttur, aðalhagfræðingi Arion banka.Ásdís segir að það séu ekki aðeins stórhækkuð veiðigjöld og „matseðill“ af skattahækkunum á ferðaþjónustuna sem stefni í. Þannig bendir hún á að stjórnvöld stefni að því að þvinga sveitarfélög til þess að fullnýta útsvarsprósentu þá sem leggja má á íbúana. Sveitarfélögum sem það geri ekki verði einfaldlega refsað.Erna Björg nefnir að huga verði að því hvernig staðið er að breytingum á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar þegar mikil óvissa ríkir á flestum sviðum, ekki síst vegna þess tollastríðs sem Donald Trump og stjórn hans í Washington hefur efnt til gagnvart flestum ríkjum heims.Í síðari hluta þáttarins er rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins Intuens Segulómunar sem býður upp á myndgreiningarþjónustu á heilbrigðissviði. Fyrirtækið hefur lent í kröppum dansi í tengslum við samskipti við Sjúkratryggingar Íslands og Landlækni.Sagan sú er í meira lagi lygileg og þess virði að fræðast um það hvernig kerfið getur unnið gegn nýsköpun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem efna vilja til samkeppni við fyrirtæki sem eru á fleti fyrir.Í upphafi þáttarins er einnig kynntur til leiks Bókaklúbbur Spursmála þar sem samfélagsmálin verða krufin á síðum áhugaverðra bóka. Klúbburinn tekur til starfa í samstarfi við öfluga bakhjarla. Lækningavörufyrirtækið Kerecis, sjávarútvegsfyrirtækið Brim, Samsung og Pennann/Eymundsson.