Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði tvisvar með forsvarsmönnum Bankasýslu ríkisins í aðdraganda nýliðins útboðs á 22,5% hlut í Íslandsbanka. Jafnframt átti Bankasýslan fund með fjárlaganefnd Alþingis þar sem fyrirkomulag útboðsins var kynnt. Engar af þeim athugasemdum sem nú hafa komið fram voru fram lagðar á fundum Bankasýslunnar með þingnefndunum. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar í samtali við Þórð Gunnarsson í nýjasta þætti Stöðutökunnar.
Jón Gunnar segist jafnframt fagna því að Ríkisendurskoðun ætli að taka útboðið til rannsóknar. Hann leggur þó áherslu á að ekki verði gerð tillaga um áframhaldandi sölu á hlutum í Íslandsbanka þar til niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.
Listi yfir þá sem keyptu hlut í bankanum var birtur í síðustu viku að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra. Forstjóri Bankasýslunnar segir að það sé ekki sitt að ákveða hvort tilboðsbók útboðsins verði birt, en fjölmiðlar hafa fjallað um að lífeyrissjóðir hafi þrýst verðinu niður í 117 krónur á hlut, sem samsvaraði um 4% lægra verði en síðasta dagslokagengi bankans fyrir útboðið.
Stöðutakan birtist í opinni dagskrá á uppkast.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.