Heimsækjum aðeins orð Robin Einzig, stofnanda Visible Child: „Visible Child styður ekki að börn séu sett í skipulagða tíma eða tómstundir þar til þau hafa náð um 7 ára aldri – og þá aðeins að þeirra eigin beiðni og á máta sem býður upp á frjálsa aðferð og sem helst felur ekki í sér skuldbindingu í lengri tíma svo þau geti hætt eða byrjað hvenær sem þeim langar.“En hvernig líður þá 7 og 8 ára gömlum stúlkum sem um þessar mundir hoppa upp á svið og halda heilu leiksýningunum uppi nánast stundum oft í viku? Þær geta ekki hætt þegar þeim hentar eða þegar þetta verður leiðigjarnt – heldur hafa skuldbundið sig á unga aldri í vinnu með fullorðnu fagfólki á sviði leiklistar. Er þetta bara eðlilegt? Þær Guðrún Inga Torfadóttir og Bergrún Íris Sævarsdóttir áttu samtal við Þórunni Obbu Gunnarsdóttur, sem leikur Ídu í Emil í Kattholti sem sýnt er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir fyrir fullu húsi, og Nínu Sólrúnu Tamimi, dóttur Guðrúnar Ingu, sem leikur hana Eyju í leikverki sem gert hefur verið eftir bækur Bergrúnar Írisar og sett upp í Gaflaraleikhúsinu og nefnist Langelstur að eilífu. Við höfum ekki áður tekið viðtöl við börn í þessu hlaðvarpi – en mögulega er það fyrirtaks efni fyrir bæði okkur sem eldri erum og einnig önnur börn. Við mælum því með þessari hlustun fyrir allan aldur fyrstu rúmu 20 mínútur þáttarins. Við tók hann Ásgrímur Geir Logason með þeim Bergrúnu Írisi og Guðrúnu Ingu – að fjalla um leiklist og uppeldi og hvernig þetta tvennt getur stutt hvort annað. Grunnregla þessa hlaðvarps að hlátrasköll heyrist helst ekki eru þverbrotin – enda eiga reglur ekki vel við okkur. En hvað geta grunnreglur í spuna t.d. kennt okkur um uppeldi? Ási, Bergrún og Guðrún spjölluðu fram og tilbaka hratt og í þvílíku flæði að varla er hægt að ýta á pásu. Þetta er greinilega eitthvað sem þau hafa smá áhuga á. Og við hin fáum að njóta og grípa ef til vill eitt og annað inn í hversdaginn með börnunum okkar.