Guðrún Björnsdóttir, doula og einingastýra hjá barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði, tók þau Davíð Alexander Östergaard, sem er í MA-gráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, og Ragnheiði Láru fjölskylduráðgjafa tali um samvinnu foreldra eftir skilnað. Ragnheiður stofnaði ráðgjafarþjónustuna Tvö Heimili árið 2019 og hefur langa reynslu sem ráðgjafi á þessu sviði hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Bæði hafa þau líka persónulega reynslu af skilnuðum og samstarfi eftir skilnað og eru vottaðir SES-skilnaðarráðgjafar. „Það sem ég var að sjá hjá sýslumanni í sáttameðferðinni var að það kannski byrjar einhver ágreiningur fyrir tveimur árum síðan af því að kannski annað er vegan og hinn ekki og barnið borðaði pizzu með pepperoni á öðrum staðnum… það er komin spenna og komin vanlíðan og það er farið að speglast yfir til barnsins og allt í einu eru foreldrar farnir í eitthvað stjórnsýslumál, það þarf að breyta umgengni, forsjá eða lögheimili eða einhverju, þegar vandinn var einhverjir samskiptaerfiðleikar fyrir löngu síðan…“ segir Ragnheiður.„Það ættu allir með vinnu og pælingum og þankagangi og smá ígrundun, þá ættu allir í raun og veru í hið minnsta geta komið fram við barnsforeldri bara eins og vinnufélaga. Bara hlutlaus samskipti,“ segir Davíð.„Barnið þarf að virkjast í því að rödd þeirra sé heyrð, að þau hafi áhrif á dýnamíkina og þannig er auðveldara að mæta þörfum þeirra,“ segir Davíð.„Ég er búin að tala við hundruði barna í þessum málum frá því ég fór að vinna í þeim og svo langoftast er þeirra draumsýn að mamma og pabbi væru bara saman. Þau hafa alltaf þörfina fyrir að þau væru einhvers staðar eining. Það er ekkert hægt að bregðast við því og taka aftur saman en það er þá hægt að mæta þessum þörfum barnsins og vera stundum saman með barninu,“ segir Ragnheiður.Þetta er frábær þáttur og yfirferð yfir þetta mikilvæga málefni hjá þeim Davíð og Ragnheiði. Það er margt í mörgu hvað viðkemur þessu málefni og við munum taka þetta aftur fyrir síðar enda skemmtu þau sér stórvel að ræða þetta málefni saman, ef það er þá hægt að skemmta sér yfir jafn alvarlegu málefni. Við fjölluðum jafnframt um sambandsslit með Siggu Dögg kynfræðingi og Soffíu Bærings félagsráðgjafa í 45. þætti ef þú vilt heyra meira strax.