Æðisleg tómatsúpa með ostakubb

Þessi tómatsúpa yljar líkama og sál.
Þessi tómatsúpa yljar líkama og sál. Ljósmynd/Gígja S. Guðjónsdóttir

Þessi tómatsúpa er æðislega góð og matarmikil, fullkomin á dimmum vetrardögum og tilvalin í upphafi nýrrar viku. Uppskriftin kemur úr smiðju Gígju S. Guðjónsdóttur, flugfreyju og matgæðings, og birtist á uppskriftavefnum Gott í matinn.

Tómatsúpa með ostakubb

Fyrir 4

  • 400 g litlir tómatar
  • 400 g niðursoðnir tómatar (1 dós)
  • 1 stk. Ostakubbur frá Gott í matinn
  • 1 stk. laukur
  • 1 stk. rauð paprika
  • 2 stk. hvítlauksrif
  • 1 l vatn
  • 1 stk. grænmetisteningur
  • Fersk basilíka eftir smekk
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 200°C blástur.
  2. Skerið tómata, lauk og papriku niður og setjið í ofnskúffu eða eldfast mót með olíu, salti og pipar.
  3. Hitið í 25 mínútur eða þar til allt hefur tekið góðan lit án þess að brenna.
  4. Setjið vatn í pott og leysið upp grænmetisteninginn og bætið svo niðursoðnu tómötunum saman við og látið sjóða í nokkrar mínútur ásamt pressuðum hvítlauk og smá salti og pipar.
  5. Takið svo grænmetið úr ofninum þegar það er tilbúið og setjið ofan í pottinn.
  6. Þið getið bæði maukað súpuna í pottinum með töfrasprota eða sett hana í blandara.
  7. Súpan er svo sett í skálar og borin fram með ferskri basilíku og muldum ostakubb.
  8. Það er ekki verra að hafa gott súrdeigsbrauð með og svo er einnig hægt er að sjóða smá pasta og setja út í súpuna til að gera hana enn þá matarmeiri og barnvænni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka