Ýsugratín með sveppa-bernaisesósu að hætti Lauga-Ás

Gratíneruð ýsa með sveppa-og bernaisesósu og osti borin fram með …
Gratíneruð ýsa með sveppa-og bernaisesósu og osti borin fram með frönskum kartöflum og hrásalati. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Djúpsteikta gratíneraða ýsan á veitingastaðnum Lauga-Ási naut mikilla vinsælda hjá viðskiptavinum og var uppáhaldsrétturinn hjá mörgum. Andrea Gunnarsdóttir matarbloggari sem heldur úti uppskriftasíðunni Andrea Gunnars er ein þeirra sem elskaði þennan rétt og greip til þess ráðs að reyna leika réttinn eftir og tókst ágætlega til.

„Sambýlismaður minn kynnti mig fyrir veitingastaðnum Lauga-Ás þegar við kynntumst. Ég hafði aldrei heyrt um staðinn en varð mjög spennt fyrir því að fara þangað þegar ég heyrði að „signature“ rétturinn þeirra væri djúpsteikt ýsa, gratíneruð með sveppa-bernaise sósu og osti. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum þegar ég smakkaði og við fórum margoft á Lauga-Ás til þess að fá okkur ýsugratín, enda varð ég afskaplega sorgmædd þegar staðurinn lokaði. Þá fór ég beint í það að reyna að leika eftir uppskriftina og eftir þó nokkrar tilraunir er ég orðin nógu sátt með útkomuna til þess að deila henni með lesendum. Þessi réttur er tilvalinn á góðum degi þegar ykkur langar að gera vel við ykkur með fiskrétti og ætti að falla í kramið hjá öllum sem eru hrifnir af fiski,“ segir Andrea.

Djúpsteikt ýsugratín að hætti Lauga-Ás

  • 600 g ýsa
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Hvítlauksduft eftir smekk
  • 4-5 sveppir, sneiddir smátt
  • 50 g smjör
  • 1 bréf sveppasósa frá Toro
  • 1 dl nautasoð
  • 3 dl mjólk
  • 1 nautateningur
  • Smá hvítur pipar
  • 2 dl bernaise sósa
  • Rifinn ostur eftir smekk
  • 3 dl bragðdauf olía til steikingar

Orly-deig

  • 300 g hveiti
  • 1 ½ tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt
  • 330 ml pilsner eða bjór
  • 2 egg
  • 3 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. Bezt á fiskinn kryddblanda
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið fyrst á því að gera orly-deigið.
  2. Hrærið öllum hráefnunum í deigið saman í skál og látið standa í 20-30 mínútur.
  3. Lagið sveppasósuna á meðan orly-deigið stendur.
  4. Bræðið örlítið smjör í potti og steikið sveppina á miðlungsháum hita í 3-4 mínútur.
  5. Bætið sósuduftinu saman við og hrærið vel saman.
  6. Bætið nautasoði, mjólk, nautatening og örlítið af hvítum pipar saman við og látið suðuna koma upp.
  7. Látið malla í 10-15 mínútur og setjið svo sósuna til hliðar og látið kólna.
  8. Þegar sósan hefur kólnað aðeins er bernaisesósunni bætt saman við.
  9. Hitið olíu á meðalstórri pönnu og látið hana hitna vel.
  10. Skerið ýsuna í passlega stóra bita og kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti eftir smekk.
  11. Veltið ýsubitunum upp úr orly-deiginu og steikið í olíunni á báðum hliðum þar til bitarnir eru gullinbrúnir og fallegir, fiskurinn þarf ekki að steikjast í gegn á þessu stigi.
  12. Raðið ýsubitunum í eldfast mót.
  13. Hellið sveppa-bernaisesósunni yfir og gratínerið með rifnum osti.
  14. Setjið inn í ofn og bakið við við 180°C hita í um það bil 15 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.
  15. Berið fram með frönskum kartöflum og hrásalati.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka