Elín Kristín Guðmundsdóttir matarfrumkvöðull á og rekur fyrirtækið Ella Stína Vegan en ástríða hennar er að koma með bragðgóðan og hollan valkost í veganúrval íslensks matvælamarkað.
Hér eru nokkar ljúffengar uppskriftir að meðlæti frá Ellu Stínu.
„Þessa uppskrift bjó ég til þegar ég var að taka mín fyrstu skref í veganlífsstíl. Hún hefur vakið mikla gleði á heimilinu,“ segir Ella Stína.
Ofnbakað rósakál með graskeri, trönuberjum, hnetum og hlynsýrópi
- 3 bollar rósakál
- 2 tsk ólífuolía.
- ¼ tsk maldonsalt
Aðferð:
- Skerið endann af rósakálinu og hreinsið ystu blöðin af.
- Setjið hreinsað kálið í skál.
- Blandið saman ólífuolíu og salti í skál og hellið yfir rósakálið.
- Látið í eldfast mót og hitið í ofni við 200 gráður í um það bil 10-12 mínútur.
- Það er best að gera rósakálið sér því það þarf ekki jafnlangan tíma og graskerið.
- Fylgist vel með rósakálinu í ofninum svo það ofeldist ekki eða brenni.
- Meðan rósakálið er hitað í ofninum er graskerið undirbúið.
Ofnbakað grasker
- 1-2 stk grasker
- 3 tsk ólífuolía
- 4 tsk hlynsíróp
- ¼ tsk kanill
- smá salt
- 1 bolli trönuber
- 2-4 msk hlynsíróp
Aðferð:
- Graskerið skorið í 3-4 cm bita.
- Blandið saman hlynsírópi, ólífuolíu, kanil og salti í skál.
- Hellið því yfir graskerið.
- Látið marinerast í smástund áður en graskerið er sett í 200 gráða heitan ofn.
- Bakið þar til það er orðið mjúkt og smástökkt í um það bil 25 mínútur.
- Pekanhnetur eru ristaðar á pönnu. Það er ekki nauðsynlegt en þá kemur meira bragð af þeim.
- Trönuberjum og hlynsírópi hellt yfir í lokin þegar búið er að ofnbaka graskerið og rósakálið.
Sætkartöflumús í hátíðarbúningi.
mbl.is/Kristinn Magnússon
„Þessa uppskrift bjó ég líka til þegar ég varð vegan, mig langaði í góða sætakartöflumús á jólum. Ég vil ekki hafa hana of sæta svo ég nota kókospálmasykur í uppskriftina þar sem kókospálmasykur gefur góða fyllingu og karamellubragð í stað sykurs,“ segir Ella Stína.
Sætkartöflumús
í hátíðarbúningi
Aðferð:
- Kartöflurnar eru skrældar, skornar í bita og settar í pott.
- Látið sjóða í smástund, ekki lengur en í 12 mínútur.
- Kælið aðeins kartöflurnar.
- Stappið þær með kartöflustappara eða töfrasprota og setjið í eldfast mót.
Næst er eftirfarandi hrært saman:
- ½ dl Oatly-haframjólk
- ¼ dl Oatly-veganrjómi, þessi í hvítu fernunum
- ½ dl hlynsíróp
- 1 dl safi úr kjúklingabaunadós (aquafaba-safi)
- ½ tsk vanilla extract.
Aðferð:
- Setjið efnin saman í skál og þeytið vel þar til það er líkt og rjómafroða. Þessu er hellt yfir sætu kartöflurnar.
Því næst er blandað saman í skál:
- ½ dl hveiti
- ½ dl kókospálmasykur
- ¼ bolli vegansmjör, brytjað í teninga
- ½ bolli pekanhnetur
Aðferð:
- Þessu er blandað saman í skál og raðað ofan á sætu kartöflurnar í eldfasta mótinu.
- Hitið ofninn í 210 gráður.
- Setjið álpappír ofan á kartöflumúsina og bakið hana í 15 mínútur.
- Takið síðan álpappírinn af og haldið áfram að elda í 25 mínútur.
Margar fjölskyldur vilja hafa heimagert rauðkál á veisluborðinu.
mbl.is/Kristinn Magnússon
„Heimagert rauðkál á jólum er mikil hefð hjá fjölskyldum. Þessi uppskrift er úr fjölskyldunni minni og hefur verið á borðum á mínu heimili um hver jól. Það má alveg gera þessa uppskrift tvöfalda því það er aldrei nóg til af rauðkáli á jólum“ segir Ella Stína.
Rauðkál
- 1 haus íslenskt rauðkál
- 1 dl rauðvínsedik
- 2 dl púðursykur
- 2 kanilstangir
- 3-4 rauð epli
- nokkur stk stjörnuanís
- ½ tsk salt
Aðferð:
- Byrjið á að skera rauðkál niður og setja í pott.
- Skerið niður eplin í litla bita og blandið við rauðkálið.
- Hellið rauðvínsedikinu yfir og hrærið púðursykur saman við.
- Setjið kanilstangirnar og stjörnuanís í pottinn.
- Sjóðið í pottinum þar til rauðkálið er orðið mjúkt.
- Kælið rauðkálið í pottinum.
- Takið kanilstangirnar og stjörnuanísinn úr rauðkálinu áður en það er sett í krukkur.
- Setjið rauðkálið í krukkur og geymið í kæli.
Það er ekki hægt að sleppa waldorfsalati á jólunum.
mbl.is/Kristinn Magnússon
„Eplasalat á jólaborðið er eitthvað sem ekki er hægt að sleppa. Það gerir matarborðið svo hátíðlegt enda er ég alltaf spurð hvort það verði ekki örugglega eplasalat með matnum,“ segir Ella Stína.
Eplasalat/Waldorfsalat
- 1 dl vegan sýrður rjómi
- 8 msk veganmajónes
- 1 tsk sítrónugras
- salt og pipar
- 4 græn epli
- 120 g græn vínber
- ½ dl þeyttur veganrjómi
- 60 g valhnetur
Aðferð:
- Byrjið á að skola vínber og græn epli.
- Skerið vínber í tvennt. Kjarnhreinsið eplin og skerið í bita.
- Blandið eplum og vínberjum saman í skál.
- Hrærið saman majónes og sýrðan rjóma og blandið saman við vínberin og eplin.
- Skolið sítrónugrasið, skerið smátt og setjið út í blönduna.
- Þeytið rjómann, bætið salti og pipar út í rjómann með sleif og látið hann út í blönduna.
- Að lokum eru valhnetukjarnar brotnir og settir saman við blönduna.
- Skreytið með valhnetum.
Gulrætur, salvía og hvítlaukur
- 250 g íslenskar gulrætur
- 50 g fersk salvía
- 3-4 hvítlauksrif
- 150 g vegansmjör
Aðferð:
- Hreinsið gulræturnar og skerið í strimla.
- Takið salvíuna og skolið hana.
- Hvítlauksrifin eru pressuð og steikt í vegansmjöri á pönnu.
- Gulrótum bætt við og þær steiktar þar til þær hafa mýkst.
- Að lokum er salvíu bætt við.
- Látið malla saman í um það bil 15 mínútur.
Þessa uppskrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hagkaup sem er hér.
Elín Kristín Guðmundsdóttir á og rekur fyrirtækið Ella Stína Vegan en það framleiðir veganmatvörur.
mbl.is/Kristinn Magnússon