Víðir Sigrúnarson er læknir með sérmenntun í geðlækningum. Víðir hefur starfað á sjúkrahúsinu Vogi frá árinu 2017 en hann hlaut grunnmenntun í læknisfræði við Syddansk Universitet í Óðinsvéum í Danmörku og var í sérnámi í geðlækningum í Þrándheimi í Noregi og á Íslandi á sínum tíma. Á sjúkrahúsinu Vogi fer fram fagleg meðferð við fíknsjúkdómi byggð á gagnreyndum vísindalegum aðferðum. Á sjúkrahúsinu er bæði legudeild fyrir inniliggjandi sjúklinga og göngudeild sem sinnir lyfjameðferð við ópíóíðafíkn. Þá sinnir sjúkrahúsið einnig eftirfylgd með lifrarbólgumeðferð auk annarra verkefna af ýmsu tagi. Auk sjúkrahússins fer fram meðferð á eftirmeðferðarstöðinni Vík, á göngudeild SÁÁ og á langtíma endurhæfingar og búsetuúrræðinu Vin. Á hverjum tíma fer fram fræðsla og kennsla heilbrigðisstarfsfólks og þar af er menntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa umfangsmest. Í heilbrigðisþjónustunni starfar fjöldi heilbrigðisstarfólks; sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar, læknaritarar, áfengis- og vímuefnaráðgjafar og sálfræðingar auk annars starfsfólks í stoðdeildum; eldhúsi, þrifum og á skrifstofu. Frá stofnun sjúkrahússins árið 1977 og fram til ársins 2020 höfðu tæplega 27 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu sjúkrahússins. Innlagnir á þessu tímabili voru um 84 þúsund eða um tvöþúsund á ári. Frá stofnun hafa verkefnin orðið fjölbreyttari og flóknari með þróun samfélagsins og breyttu neyslumynstri.