Dramatísk og mikilvæg fjölskyldusaga

Elín Hirst fjölmiðlakona og rithöfundur hefur sent frá sér bókina Afi minn stríðsfanginn. Bókin er hluti af fjölskyldusögu Elínar og í henni er meðal annars rakin saga afa hennar og ömmu en Karl Hirst, föðurafi hennar var handtekinn af breskum hermönnum og fluttur í fangelsi í Bretlandi. Sögusviðið er síðari heimstyrjöldin. Elín er gestur Dagmála í dag og ræðir bók sína og þá dramatísku atburði sem afi hennar og amma gengu í gegnum á tímum styrjaldarinnar. Karl var þýskur ríkisborgari, búsettur á Íslandi þegar Bretar tóku Ísland. Þýskir ríkisborgarar voru fluttir frá landinu og í fangelsi á Englandi, þar sem afi hennar stríðsfanginn dvaldi þar til stríðinu lauk. Elín segir Karl hafa verið alvöru afa. Alltaf tilbúinn að aðstoða og gefa sér tíma til að vera með barnabörnunum. Hún segir hann hafa verið náttúrubarn og einstakan dýravin. Stjórnmál var eitthvað sem hann hafði engan áhuga á og hann var alls ekki nasisti. Elín segist fara mjög nálægt afa sínum og ömmu í bókinni og segist velta því fyrir hvort þau séu sátt. Þegar handritið lá fyrir kallaði Elín til fjölskyldufundar til að allir gætu skoðað verkið og metið. Þá var hún með hnút í maganum. Hún segist hafa orðið að hafa söguna sanna og þess vegna er hún mjög persónuleg.