Flestir eru spenntir að snúa heim

Nú er liðinn mánuður frá því að jarðskjálftahrinan öfluga leiddi til þess að Grindavík var rýmd. Enn ríkir mikil óvissa um stöðuna og hvenær íbúar geti snúið aftur til heimila sinna. Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er íbúi og björgunarsveitarmaður í Grindavík. Hann segir atburðarásina, sem náði hámarki föstudaginn 10. nóvember, vera eitthvað sem engin gat séð fyrir. Viðbragðsaðilar og vísindamenn hafi verið búnir að gera mikið af áætlunum og teikna upp sviðsmyndir en enginn hafi búist við þessu. Otti hefur tímabundið sagt sig frá formennsku í Landsbjörg þar sem verkefnin eru ærin í heimabyggð. Fjárhagsáhyggjur eru miklar og vaxandi hjá íbúum Grindavíkur. Otti hefur trú á því að þau mál leysist farsællega gagnvart bankakerfi og lífeyrissjóðum. Hann á hins vegar erfitt með að svara spurningunni, Af hverju er ekki búið að klára þetta? Margir, og þá ekki bara Grindvíkingar upplifa að það hafi vantað einhvern endapunkt í atburðarásina sem náði hámarki 10. nóvember. Otti er nánast fullviss um að það verði eldgos á svæðinu. Þannig hafi þetta verið síðustu ár. En hann er þá alls ekki að horfa til Grindavíkur. Áður en íbúar geta snúið aftur þarf að tryggja að bærinn sé öruggur og að innviðir séu komnir í lag. Eitt af því sem núið er unnið að er að fylla upp í og kortleggja sprungur sem hafa orðið í og við bæinn. Þá horfa allir líka til hættumats sem Veðurstofan framkvæmir. Otti Rafn Sigmarsson er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag þegar tólf dagar eru til jóla. Hann ræðir hamfarakvöldið og rýminguna ásamt óvissunni og eftirmálum hildarleiksins. Álagið á björgunarsveitarfólk og stærstu fjáröflun björgunarsveitanna, flugeldasöluna, sem er framundan.