Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra á sviðið í dag í Dagmálum. Hann fer yfir það ófremdarástand sem komið er upp á Íslandi í útlendingamálum. Sveitarfélög segjast sum hver ekki geta meir. Straumur hælisleitenda til Íslands hefur tífaldast þegar borin eru saman tímabilin 2003 - 2016 og svo 2016 til og með 2023. Á fyrra tímabilinu bárust tæplega 1.400 umsóknir á móti 14.000 á síðara tímabilinu. Jón fer yfir það í viðtalinu að íslensk löggjöf um þennan málaflokk er mun rýmri en gerist í nágrannalöndunum sem við gjarnan berum okkur saman við. Nú er verið að leggja lokahönd á nýtt frumarp í dómsmálaráðuneytinu sem eftirmaður Jóns, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mun senn kynna. Þar er leitast við að gera kerfið skilvirkara og færa það nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Þau lönd eru að herða allar ólar og gildir einu hvort hægri eða vinstri flokkar eru við stjórnvölinn. En það er víðar komið við. Rætt um framhald hvalveiða, en nú liggur fyrir að endurnýja þarf leyfi um slíkt. Það mál mun koma inn á borð matvælaráðherra sem í dag er Katrín Jakobsdóttir eftir að Svandís Svavarsdóttir fór í veikindaleyfi. Jón sér þar fyrir sér stóran átakapunkt sem óvíst er að ríkisstjórnin geti klárað. Samskipti Jóns við Vinstri græna er til umræðu og einnig hvernig ber að taka á flugfélögum sem ekki birta lista yfir flugfarþega á leið til Íslands. Staðan í virkjunarmálum og síðast en ekki síst tafapólitík sem Vinstri græn hafa stundað miskunnarlaust árum saman með góðum árangri, að sögn Jóns.