Ríkisstjórnin, Seðlabanki og flóttamenn

Ragnar Gunnarsson, eða Raggi Sót er gestur Dagmála á fyrsta vinnudegi páskavikunnar. Hann ræðir öll stórmálin sem eru uppi í íslensku samfélagi þessa dagana. Forsetakosningar, framganga Seðlabankans í tengslum við kjarasamninga. Hælisleitendamálin og stöðu ríkisstjórnarinnar. Raggi verður seint sakaður um skoðanaleysi, en hann var flokksbundinn Miðflokknum þar til flokkurinn tók upp fléttulista í prófkjöri. Þá var honum nóg boðið og hann sagði sig úr flokknum. Það gekk vel fyrir sig, ólíkt því þegar hann í áratug reyndi að komast af félagatali Alþýðubandalagsins. Nú stefnir allt í að Akureyri, heimabær og æskuslóðir Ragga verði borg. Gamli popparinn ræðir þá stöðu og einnig sitt fyrra líf þegar hann gerði garðinn frægan með Skriðjöklum. Hann hefur staðið í stórræðum ásamt Guðbjörgu sambúðarkonu sinni undanfarin misseri. Tíðar ferðir til Póllands í tannviðgerðir þar sem kostnaður er einungis þriðjungur af því sem þau hefðu þurft að greiða hér heima. Raggi Sót startar þessari viku með hvelli.