Svend Richter er einn reyndasti tannlæknir Íslands. Hann nam réttartannlæknisfræði og sú menntun leiddi hann á framandi og hryllilegar slóðir. Í Kósovó rannsakaði hann við þriðja mann fjöldagrafir eftir stríðsátökin í landinu í lok síðustu aldar. Þær rannsóknir fóru fram í skjóli Bandaríkjahers en á vegum Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag. Svend sá þar mörg dæmi um stríðsglæpi og hörmulegar aftökur barna og kvenna. Í fjöldagröfunum var oft búið að koma fyrir jarðsprengjum til að valda sem mestum skaða og drepa þá sem mögulega leituðu sannleikans. Hann var kvaddur á vettvang á hamfarasvæðið eftir flóðbylgjuna miklu sem skall á Tælandi á jólunum 2004. Hann segir þá reynslu jafnvel hafa verið hræðilegri en rannsóknir á fórnarlömbum stríðsátakanna á Balkanskaga. Svend Richter er gestur Dagmála í dag og ræðir ofangreinda atburði. En hann hefur víðar komið við sögu og hefur nýverið lokið störfum fyrir Kennslanefnd eftir 35 ára starf. Hann hefur ásamt fleirum annast aldursgreiningar á einstaklingum sem segjast vera börn við komu til Íslands í leit að skjóli eða hæli. Börn eiga skýran rétt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar eru forsjárlaus á flótta. Barn er einstaklingur undir átján ára aldri. Við aldursgreiningar hefur komið í ljós að yfir áttatíu prósent þeirra sem segjast vera börn eru að segja ósatt. Það er sambærileg tala á við það sem þekkist í öðrum Evrópulöndum, í sambærilegum málum. Þá ræðir Svend hætturnar sem felast í tannlækningum í Austur-Evrópu og þær breytinar sem hafa orðið á faginu í hans tíð.