Að eiga land er undirstaða alls

Hann er 25 ára og rekur ásamt konu sinni stórt sauðfjárbú með sex hundruð kindur á húsi í vetur. Steinþór Logi Arnarsson er formaður Samtaka ungra bænda sem er félagsskapur sem telur um 400 manns. Verkefnin eru ærin og sérstaklega hefur afkoma bænda verið til umræðu undanfarin ár. Hann hefur nýlokið hringferð um landið með Bændasamtökum Íslands þar sem bændur og búalið hafa rætt stöðu landbúnaðar á Íslandi. Verkefnin eru fjölmörg. Búvörusamningar renna út árið 2026 og undirbúningur er hafinn að því samtali við ríkisvaldið. Ásókn í jarðir hefur aukist og dæmi eru um að bankað sé upp á árlega þar sem fjársterkir aðilar vilja kaupa jarðir. Það er sjaldnast vegna áhuga á búskap. Steinþór Logi ræðir líka tollamál sem hann segir að finna megi brotalamir í. Hér er á ferðinni verðugur fulltrúi nýrrar kynslóðar í landbúnaði. Fæðuöryggi er orð sem flestir hafa heyrt upp á síðkastið en færri vita að við úttekt sem gerð var kom í ljós að slíkt öryggi var til þriggja vikna. Eftir það þyrftum við að búa okkur undir skort og breytt lífsmynstur. Borða hestana okkar svo dæmi sé tekið. Steinþór telur rétt að huga að búsetuskyldu á jörðum og nefnir sem dæmi að Danir eru ekki bara með búsetuskyldu heldur einnig nýtingarskyldu á jarðnæði.