Skógræktin metnaðarfull en sætt gagnrýni

Hlutfall skóga á Íslandi var komið niður í eitt prósent af heildarflatarmáli lands, þegar verst lét. Ríflega eins árs gömul ríkisstofnun, Land og skógur - LOGS vinnur nú að því markmiði að fimm prósent landsins verði skógi vaxin. Þegar horft er til þess lands sem fóstrað getur skóga er um að ræða ríflega tíu prósent af láglendi Íslands. Ágúst Sigurðsson, forstjóri LOGS er gestur Dagmála í dag og ræðir þar áformin og svarar fyrir gagnrýnisraddir sem fram hafa komið. Land og skógur varð til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Fyrrum Landgræðslustjóri hefur gagnrýnt áform LOGS harðlega og segir skógrækt til kolefnisbindingar á villigötum og vill að „skógræktargrænþvotti“ verði tafarlaust hætt. Ágúst vísar því á bug að um sé að ræða einhvers konar grænþvott þegar kemur að kolefnisbindingu með skógrækt. Tvö verkefni hafa fengið formlega vottun á þessu sviði en fjölmörg bíða vottunar og eru þar undir 2.000 til 2.500 hektarar lands. Hann segir að hlustað sé á gagnrýnisraddir og tekið tillit til nýrra upplýsinga sem fram koma er varða kolefnisbindingu. Kolefnisiðnaðurinn í heiminum er risavaxinn. Sá hluti sem snýr að sölu á einingum vegna kolefnisbindingu er áætlaður, í skýrslu sem unnin var fyrir loftslagsráðuneytið í lok síðasta árs að velti á bilinu 10 til 40 milljörðum Bandaríkjadala. Tala fyrir þessi umsvif á Íslandi liggur ekki fyrir. Talað hefur verið um gullgrafaraæði af þeim sem gagnrýna skógræktaráætlun sem lítur að kolefnisbindingu. Þar á meðal er Anna Guðrún Þórhallsdóttir, prófessor í landnýtingu sem var gestur Dagmála í síðustu viku. Ágúst hafnar þessu en leggur áherslu á að endurskoða þurfi stöðugt þá vitneskju sem liggur fyrir og nú eru í endurskoðun lög er lúta að hluta af þessum verkefnum. Fróðlegur þáttur um græn en um leið flókin mál.