Íslensk geðrækt í boði fyrir Evrópu

HappApp er íslenskt forrit sem miðar að geðrækt og hamingjuríkara lífi. Hugmyndina fékk Helga Arnardóttir eftir nám í jákvæðri sálfræði. Appið hefur nú fengið stærra svið í samstarfi við Landlæknisembættið og aðþjóðlega verkefnið Mentor sem snýst um að sameina krafta sérfræðinga frá ýmsum Evrópulöndum til að efla andlega heilsu Evrópubúa. Sjö Evrópulönd munu fá aðgang að appinu á næstunni. Það eru Úkraína, Spánn, Ítalía, Rúmenía, Noregur, Ungverjaland og Kýpur. Appið er þegar aðgengilegt á íslensku og ensku en vinna stendur yfir við að þýða viðmótið yfir á þau tungumál sem löndin hér að ofan nota. Helga Arnardóttir er gestur Dagmála í dag og ræðir um smáforritið, hugmyndina á bak við það og mögulega notkun. Appið sem byrjaði sem lítil krúttleg hugmynd er nú á góðri leið með að ná til tugmilljóna í Evrópu. Þegar eru komnir á annað þúsund notendur hér á Íslandi. Konur nýta sér frekar appið en karlar á þessum fyrstu stigum. Verkefnið er fjármagnað til þriggja ára í gegnum Evrópusamstarfið, en allir geta sótt það og nýtt, sér að kostnaðarlausu. Smáforritið eða appið verður síðar notað til að meta árangur af notkun appsins vilja notendur gefa endurgjöf sem að sjálfsögðu verður nafnlaus.