Minning Jökuls Frosta lifir á Græna deginum

Árið 2021 varð Daníel Sæberg Hrólfsson fyrir þeirri sáru lífsreynslu að missa fjögurra ára gamlan son sinn, Jökul Frosta, af slysförum. Daníel var staðráðinn í að nýta þann sára harm sem fylgdi sonarmissinum í að láta gott af sér leiða. Nú efnir hann í þriðja sinn til styrktarviðburðarins Græna dagsins til minningar um Jökul Frosta, litla fallega drenginn með grænu augun, sem hefði fagnað átta ára afmæli næstkomandi sunnudag hefði hann fengið að lifa. Í Dagmálum dagsins ræðir Daníel opinskátt um fráfall sonar síns og dagskrá Græna dagsins sem fram fer á afmælisdegi Jökuls Frosta sunnudaginn 2. mars.