Skúli Margeir Óskarsson Gunnarstein fæddist á Fáskrúðsfirði 3. september 1948. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 9. júní 2024.

Foreldrar hans voru Nína Mortensen, f. 13.6. 1923, d. 28.4. 1983, húsmóðir frá Hovi á Suðurey í Færeyjum og Óskar Sigurðsson, f. 10.10. 1924, d. 16.5. 2002, fiskmatsmaður frá Fáskrúðsfirði. Skúli ólst upp á Fáskrúðsfirði ásamt sjö systkinum sínum, þau eru: Sigurþór, f. 1948, Guðný, f. 1950, Tova Flórenthína, f. 1952, Elín Jóhanna, f. 1953, Ósk, f. 1957, Nína, f. 1962, og Már, f. 1965. Hálfbróðir þeirra sammæðra er Tommy Mortensen, f. 1942.

Blóðfaðir Skúla og Sigurþórs var Johan Martin Thomsen Gunnarstein, f. 25.7. 1932, d. 29.5. 2023, sjómaður í Færeyjum, eftirlifandi kona hans er Gertrud Gunnarstein, f. 1930. Hálfsystkini Skúla og Sigurþórs samfeðra eru þau Hjalti, Connie og Margrit Gunnarstein.

Eftirlifandi eiginkona Skúla er Svanhvít Hrönn Ingibergsdóttir, f. 16.9. 1948. Þau giftu sig 1983. Dóttir þeirra er Sara María, f. 8.6. 1973, textílhönnuður, klæðskeri og kennari. Eiginmaður hennar er Úlfur Eldjárn, f. 3.9. 1976. Sonur Söru og stjúpsonur Úlfs er Bjartur Örn Bachmann, f. 1997. Börn Söru og Úlfs eru: Dýrleif Eldjárn, f. 2005, Alína Kristín, f. 2012, og Þórarinn Skúli, f. 2014.

Stjúpdætur Skúla og dætur Svanhvítar eru: Lilja Björg Eysteinsdóttir, f. 5.4. 1967, og E. Hjaltey Rúnarsdóttir, f. 21.3. 1969. Eiginmaður Lilju er Ólafur Stefánsson, f. 1968. Börn þeirra eru Burkni, f. 2000, og Svanhvít, f. 2005. Eiginmaður Hjalteyjar er Sigurður Andrés Ásgeirsson, f. 1960. Börn þeirra eru Jökull Hjálmar, f. 2002, og Hrannar Helgi, f. 2005.

Skúli vann á sínum yngri árum við sveitastörf og var í fiski á Fáskrúðsfirði. Hann var eitt ár á vertíð á Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum 1973, en flúði undan gosinu og var eftir það mestmegnis búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Hann starfaði hjá Nýju blikksmiðjunni 1973-79, var næturvörður hjá Hagkaup 1979-2003, staðarhaldari orlofshúsa Landsbankans í Selvík frá 2003-2008 og umsjónarmaður fasteigna hjá Landsbankanum 2008-2015.

Skúli var á meðal helstu afreksmanna Íslendinga í íþróttum. Hann keppti í lyftingum og kraftlyftingum frá 1970 og setti fjölda Íslandsmeta, Norðurlanda- og Evrópumeta. Hann varð fyrstur íslenskra íþróttamanna til að setja heimsmet þegar hann setti heimsmet í réttstöðulyftu árið 1980. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins 1978 og 1980, var sæmdur gullmerki KRAFT 2016 og útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2017.

Útför Skúla fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 24. júní 2024, kl. 15. Streymt verður frá athöfninni á heimasíðu Lindakirkju, www.lindakirkja.is/utfarir.

Þegar við Sara vorum að rugla saman reytum okkar kom að því að ég skyldi hitta foreldra hennar í mat. Einhverjir vinir gerðu grín og sögðu að ég mætti ekki vera hræddur við pabba hennar, og þá rann loks upp fyrir mér hver faðir hennar var: Sjálfur Skúli sterki! Ofurmennið sem setti heimsmet í réttstöðulyftu og var svo mikill nagli að það var samið um hann sérstakt lag.

Áhyggjurnar hurfu þó skjótt þegar ég hitti þennan tilvonandi tengdaföður minn í fyrsta skipti, því ljúfari manni hef ég ekki kynnst.
Ekki spillti heldur fyrir að við reyndumst eiga sama afmælisdag. Alla tíð síðan var römm vináttutaug á milli okkar tengdafeðganna.

Ef ég þurfti að fara í framkvæmdir á heimilinu var hann alltaf mættur til að hjálpa. Eitt sinn var ég að bisa við að losa járn úr vegg, sem var svo pikkfast að sama hvað ég tók á því, þá haggaðist það ekki. Kraflyftingamaðurinn fékk þá að reyna og viti menn? Hann náði að losa járnið, en þó ekki með afli, heldur festi hann litla krafttöng á það og bankaði svo létt á hana með hamri í dágóða stund þar til járnið bara rann allt í einu út úr veggnum. Svo útskýrði hann fyrir mér: „Það eru nefnilega litlu höggin sem skipta mestu máli.“

Skúli naut þess að vinna og vesenast. Það voru dýrðardagar þegar þau Hrönn og Skúli voru staðarhaldarar í Selvík, sumarhúsabyggð Landsbankans við Áfltavatn. Þar nutu þau sín bæði í starfi og leik. Barnabörnin elskuðu að heimsækja þau í sveitina þar sem var hægt að fara út á bát, spila mínígolf og billjarð, eða slaka á við arineld í koníaksstofu bankastjórans. Skúli rúntaði um svæðið á litlum traktor, dyttaði að bústöðunum og reddaði hinu og þessu fyrir gestina, og þótti heldur ekki leiðinlegt að spjalla við þá, enda með eindæmum mannblendinn og vandræðalega fljótur að hefja samræður við ókunnuga.

Skömmu eftir að Skúli hætti að vinna fékk hann bæði heilablóðfall og hjartaáfall. Hann varð nánast ófær um gang, með skerta sjón og brenglað jafnvægi, og óvíst hverju endurhæfing myndi skila.

Hann tók þessu reiðarslagi hins vegar af einstöku æðruleysi og einhenti sér í endurhæfinguna. Hann setti sér lítil markmið sem uxu smátt og smátt: Fyrst að komast niður stigann heima hjá sér, næst að geta gengið út á horn, því næst að rölta niður að gatnamótum. Áður en við vissum af var hann farinn að klöngrast á göngugrindinni yfir snjóskafla og niður í Salalaug þar sem hann gat tekið á því í tækjasalnum.

Þarna glitti í galdurinn á bak við einn ótrúlegasta íþróttaferil Íslandssögunnar. Þrautseigjan, þolinmæðin og þrjóskan voru engu lík. Ný met féllu á hverjum degi og litlu höggin skiptu öllu máli. Af öllum hans vöðvum held ég að sá í höfðinu hafi verið stæltastur.

Síðustu dagar Skúla voru erfiðir en fallegir. Gullhjartað var einfaldlega orðið of lúið, en hann var þakklátur fyrir hafa fengið níu góð ár eftir áfallið mikla og var fullviss um að eitthvað ennþá betra biði hans nú fyrir handan.

Skúli minn, það var þvílíkur heiður að fá að deila með þér afmælisdegi, fjölskyldu og gleðistundum. Far í friði minn kæri.

Úlfur Eldjárn.

Nú þegar ég minnist Skúla afa er eitt orð sem stendur upp úr og það er hetja.

Alltaf þegar eitthvað bjátaði á þá gaf hann hollráð með augum sem fullvissuðu mann um að heimurinn væri ekki að farast. Allt væri hér og nú. Og hann var með einstaklega mjúkar hendur, sem báru orðunum vitni. Þannig bjargaði hann deginum. Bílskúrinn hans afa var heill heimur útaf fyrir sig og þar var alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti. Sama hvort förinni var heitið þangað eða í eitthvað annað ævintýri, þá spjallaði afi mikið og um margt gott. Það gerði hann á sinn einstaka húmoríska máta. Hann var jákvæður og bjartsýnn og það var alltaf prinspóló og country tónlist.

Viskubrunnurinn hans var djúpur og hann var óeigingjarn á að deila úr honum. Það vita allir sem voru svo heppnir að kynnast honum. Það voru alltaf einhverjar pælingar, hugvekjur og hollráð. Ég veit ekki hvar hann öðlaðist alla þessa þekkingu, því ekki las hann margar bækur umfram nauðsyn. Samt var alltaf ný saga og hugnæm speki:

„Krafturinn kemur að innan, aldrei að utan – og þú mátt muna það, drengur minn, að þú getur orðið nautsterkur bara af einu kústskafti. Trikkið er að þetta er allt í hausnum og brjóstinu líka.“

Blessuð sé minning elsku hjartahlýja og sterka Skúla afa.

Bjartur.

Tíminn er á þrotum, ég sit hér á sjúkrahúsinu hjá Skúla bróður mínum og læt hugann reika um allt sem við höfum spjallað um og átt saman. Ég veit hvað er í vændum og það veit Skúli líka svo við erum ekki eins glaðir og með sama húmor og við höfum notað alla tíð, hann sagði við mig: Nú er þetta að verða búið og ég sagði: já, en við hvern á ég þá að tala og hringja í? Ég veit það ekki svaraði hann. Þetta skilur eftir ofboðslegt tómarúm hjá mér þar sem við spjölluðum saman í síma á hverjum degi, gerðum grín en ræddum líka alvarlega hluti og oft var talað um lyftingar. Hann sagði við mig: Már, ég veit þetta verður erfitt en ekki vera leiður lengi, það mundi ég ekki vilja.

En ég á svo margar skemmtilegar minningar um samverustundir okkar, t.d. þegar við vorum á sama tíma á Tenerife en þá var hann orðinn veikur og átti erfitt með að fara um svo ég kom á hótelið sem hann var á og sótti hann og við fórum tveir niður á strönd og vorum þar og drukkum nokkra bjóra og fórum í sjóinn, það var ómetanleg stund fyrir okkur báða. Svo þegar við fórum keyrandi austur á Fáskrúðsfjörð, það var ótrúlega gaman, miklar sögustundir og mikið hlegið.

Þegar ég var ungur drengur leit ég mjög upp til Skúla, þar sem hann var stóri bróðir minn og vel þekktur í þjóðfélaginu sem einn okkar besti íþróttamaður á þeim tíma. Það kom aldrei neitt annað til greina en að reyna að feta í fótspor hans þegar ég yrði eldri, sem ég átti að sjálfsögðu engan möguleika á. Skúli var einstaklega hæfileikaríkur og sterkur og hann hefði getað orðið góður í hvaða íþrótt sem er því hann hafði ótrúlega hæfileika.

Skúli var á sínum ferli okkar besti kraftlyftingamaður, vann til ótalmargra verðlauna erlendis og hér heima og setti mikið af metum, bæði Íslands-, Norðurlanda-, Evrópu- og jafnvel heimsmet. Skúli vann við ýmis störf í Reykjavík en síðustu árinn vann hann fyrir Landsbankann og hann hafði ákveðið að hætta að vinna þegar hann hefði aldur til en þá veiktist hann. Hann gat því ekki notið sín með Hrönn eins og hann hafði hugsað sér að gera og þessi veikindi var hann að berjast við í tíu ár. Hann hafði góða hjálp frá konunni sinni en hún hefur staðið við hlið hans eins og klettur og einnig dætur hans, það hefur maður séð hvað þær hafa verið góðar við hann, það hefur verið ómetanlegt að sjá hvað hann á góða að.

Sama hversu veikur hann var þá hætti hann aldrei að æfa; ef hann gat ekki æft standandi þá sat hann við æfingarnar. Hann var búinn að gera sér góða aðstöðu í kjallaranum heima hjá sér og bara tveimur mánuðum áður en hann dó þá hringdi hann í mig og bað mig að koma og saga neðan af löppunum á stól sem hann hafði í kjallaranum svo hann gæti notað hann við æfingar.

Við systkinin erum níu talsins og alltaf hefur verið mjög kært á milli okkar og gaman þegar við komum saman. Þar hefur Skúli átt stóran þátt með glaðlegri framkomu og miklum húmor sem hann hafði. Það verður skrítið og tómlegt að koma saman eftir þetta, stórt tómarúm verður í fjölskyldunni.

Ég vil þakka þér fyrir allt kæri bróðir. Ég mun sakna þín.

Kveðja,

Már.

Elsku mágur minn Skúli Óskarsson er floginn á vit nýrra ævintýra og bíður eftir okkur á græna teppinu eins og hann orðaði það sjálfur. Skúli var einstakur, ávallt glaður, jákvæður og tók heilsubresti sínum með miklu æðruleysi. Hann sýndi okkur öllum hvað hann var mikill baráttumaður. Hann var agaður íþróttamaður og lyftingar voru hans hjartansmál. Í kompunni sinni gerði hann allar þær æfingar sem hann mögulega gat alveg þar til hann var lagður inn á sjúkrahúsið og ekki varð aftur snúið þaðan. Það sýndi sig í lokin hvað hann var sterkur og mikill baráttujaxl og gleðigjafi, alltaf glettinn og með góðlátlegt grín þar til yfir lauk. Minningarnar eru margar af okkar góðu kynnum. Hrönn og Skúli gerðust dagforeldrar sona okkar, þau vildu að þeir væru á góðum stað og vel hugsað um þá. Prinsinn Hallur og gullmolinn Hrannar hafa alltaf borið þessa titla hjá þeim hjónum. Þeir fengu að njóta þeirra og borðuðu allan mat sem settur var á borð fyrir þá því það var auðvitað „kraftamatur“ og þeir ætluðu að verða kraftakarlar eins og afi Skúli. Hann tók prinsinn Hall stundum á æfingar með sér og þar fékk Hallur að hanga á stönginni hjá Skúla og Jóni Páli og aldrei var hann fyrir þeim, bara velkominn. Ég man þegar gullmolinn Hrannar var veikur, þá kom Skúli stundum beint af næturvakt og passaði hann svo ég kæmist í vinnuna. Það eru ekki margir sem myndu gera þetta en Skúli gerði allt svo auðvelt, það var aldrei neitt mál, bara velkomið.

Við þrjú systkini og makar áttum sumarbústaði í sama landi í mörg ár og var samveran mikil á milli bústaða, spilað og leikið úti sem inni. Gönguferðir á milli bústaða og stígurinn var nefndur Skúlaskeið þar sem börnin og við röltum á milli á hverjum degi. Skúli og elsku Hrönn reyndust okkur fjölskyldunni alltaf vel. Þau unnu saman í Selvík og þar var gott að koma, Skúli og Hrönn sem eitt í þeirri paradís sem þar var. Gaman saman hvað sem gert var, ferðir innanlands og utanlands. Lífið er jú fjársjóður minninga í hverri fjölskyldu.

Skúli hætti að vinna í Landsbankanum föstudaginn 7. mars 2015, þá átti að fara að njóta efri áranna og var tilhökkunin mikil, það átti að leggjast í ferðalög. En á svipstundu breyttist allt lífið. Mánudeginum þar á eftir fór hann til læknis, var eitthvað móður og þreyttur. Hann var lagður inn til rannsókna og fljótlega eftir innlögn fór hann í hjastastopp, og daginn eftir það mjög alvarlegt heilablóðfall og fór hann í aðgerð á höfði. Hann náði aldrei aftur sínum fyrri manni en um leið og hann kom til baka eftir strangar æfingar á Grensás, þar sem hann sló ekkert af, náði hann sér eins og hægt var og eftir að heim kom var haldið áfram að æfa eins og enginn væri morgundagurinn. Hann setti sér markmið að ná að lifa í 10 ár og hann náði níu og hálfu ári. Hrönn stóð eins og klettur með sínum manni.

Við þökkum Skúla fyrir allt það sem hann var okkur.

Minning hans lifir. Það elskuðu allir Skúla.

Samúðarkveðju sendum við elsku Hrönn og fjölskyldu og systkinum Skúla og fjölskyldum.

Hafdís og
Karl (Kalli).

Ef finna ætti eitt lýsingarorð sem best gæti lýst Skúla Óskarssyni er glaðbeittur það orð sem einna fyrst kemur upp í hugann. Hann virtist alltaf vera glaður, stundum eins og kraumandi af kæti, jafnan með gamanyrði á vör, en um leið umhyggjusamur og hlýr. En orðinu samkvæmt ekki aðeins glaður heldur líka beittur, íþróttamaður á heimsmælikvarða sem náði árangri og frægð með gríðarlegri ástundun og vinnu, jafnframt dugnaðarforkur sem vann fyrir sér hörðum höndum frá unga aldri.

Við fæðingu var hann víst svo agnarsmár og vó aðeins þriðjung eða svo af þyngd tvíburabróður síns. Hann varð því aldrei hár í loftinu, en náði samt að setja heimsmet.

Skúli gat endalaust sagt skemmtisögur úr „bransanum“, og hafði mjög gaman af því þegar gert var grín að honum sjálfum og kollegum hans. Stundum fóru sögur af öðrum íþróttagörpum að skrifast yfir á hann og þá hló hann bara hátt og innilega. Laddi orti og söng um Skúla Óskarsson. Þann brag þótti Skúla vænt um og hafði ætíð innrammaðan uppi á vegg hjá sér.

Við kynntumst Skúla og Hrönn þegar Úlfur sonur okkar og Sara María dóttir þeirra hófu sambúð snemma á öldinni. Síðan höfum við átt með þeim margar góðar stundir, deilt með þeim barnabörnum og tekið þátt í lífi hvert annars á marga lund.

Þegar barnabörnin fóru að hrúgast upp hjá Skúla og Hrönn, sem byrjaði með Bjarti Erni og endaði með Þórarni Skúla, var ekkert gefið eftir varðandi ást og umhyggju á alla lund. Þau Hrönn hafa alla tíð verið afskaplega samhent hjón og sérstaklega félagslynd enda hvort um sig úr stórum samheldnum systkinahópi. Skúli var líka næmur á mannlega þáttinn í fari fólks og einnig þótti hann góður spámaður á kyn ófæddra barnabarna sem beðið var eftir. Okkur er minnisstætt að þegar von var á fyrsta stúlkubarninu var Skúli alveg viss um kynið, því hann hafði dreymt svo margar dúkkulísur nokkru fyrir fæðingu barnsins.

Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum góða manni sem nú er genginn of snemma eftir hetjulega, já og glaðbeitta, baráttu við sjúkdómsáföll. Hrönn og fjölskyldu vottum við dýpstu samúð okkar, einnig systkinum Skúla og þeirra fólki.

Unnur Ólafsdóttir og Þórarinn Eldjárn.