Ingibjörg Sigríður Gísladóttir fæddist í Reykjavík 5. október 1946. Hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 12. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Áslaug I. Ásgeirsdóttir húsmóðir, f. 27. september 1920, d. 6. apríl 1981, og Gísli Ingibergsson rafverktaki, f. 10. október 1920, d. 23. október 1974.

Systkini hennar eru Hafdís, f. 11. september 1950, d. 24. janúar 2022, gift Grétari Eggerti Ágústssyni, f. 1947, og eiga þau eina dóttur, Áslaugu Elínu, f. 1986, og Gísli Þór, f. 21. nóvember 1961, og á hann eina dóttur, Margréti, f. 1995.

Ingibjörg giftist Sveinbirni Óskarssyni, f. 6. júlí 1945, d. 11. apríl 2014. Börn þeirra eru fjögur: 1) Áslaug Ingibjörg, f. 1972, börn hennar eru: Gréta Ingibjörg og Sveinbjörn Sævar. 2) Guðrún Jóna, f. 1976. 3) Óskar Gísli, f. 1978, maki Karen Milek, f. 1972, sonur þeirra er Kristófer. 4) Hafdís Arna, f. 1979, maki Lúðvík Júlíusson, f. 1976, börn þeirra eru: Sveinbjörn Egill, Ingibjörg Iðunn og Friðþjófur Pétur, fyrir á Lúðvík soninn Vilhjálm Ottó.

Fyrstu árin bjó fjölskyldan í kjallaranum á Hverfisgötu 99 í húsi föðurforeldra hennar en árið 1954 fluttu þau í nýbyggt hús í Langagerði 2.

Ingibjörg lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 1963. Þá réðst hún til starfa á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Gerðist heimavinnandi húsmóðir þegar elsta barnið fæddist og byrjaði hjá Póst- og símamálastofnun þegar yngsta barnið byrjaði í grunnskóla. Starfaði hún þar til ársins 2002.

Útför Ingibjargar fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 26. júní 2024, klukkan 15.

Nú er hún „Hina mamma“, Ingibjörg systir mín farin frá okkur. „Sæll elsku kallinn minn“ eða „sæll kallinn minn“ heyri ég ekki oftar en þannig heilsaði hún mér og kvaddi nánast alltaf. Fráfall hennar gerðist snöggt og fyrirvarinn var enginn. Hún gekk í gegnum veikindi sem hún tókst á við af einstöku æðruleysi og kvartaði aldrei. „Hina mamma“ hugsaði vel um bróður sinn alla tíð og sama átti við um Hafdísi systur og fjölskyldur okkar. Hún var alla tíð vakin og sofin yfir sínum nánustu. Vil ég sérstaklega þakka fyrir þá ást og umhyggju sem Margrét dóttir mín fékk alla tíð. Þegar foreldrar okkar systkina voru bæði fallin frá tók hún að sér það hlutverk að halda þétt utan um okkur öll, einskonar ættmóðir, 35 ára gömul, og gerði það með miklum sóma.

Ingibjörg var kraftmikil, vildi láta hlutina ganga og féll sjaldan verk úr hendi. Hún eignaðist fjögur yndisleg börn með Sveinbirni eiginmanni sínum sem féll frá 2014. Bjuggu þau þeim fallegt og gott heimili og öll komust þau vel til manns. Það var sjaldan lognmolla og heimilið oft ansi fjörugt.

Hún var stórglæsileg kona með mikla útgeislun. Ég man eftir henni, þegar ég var 6 ára og hún 21 árs, klædd í silfurglitrandi kjól, silfursokkabuxur og silfurskó. Fyrir mér var hún flottust, sannkölluð prinsessa.

Tilfinningar sínar bar hún ekki á torg en það var stutt í brosið og hláturinn en hún lét okkur yngri systkini sín um gauraganginn og grallaraskapinn. Henni leið best þegar fjölskyldan var í kringum hana og þegar barnabörnin fæddust bættust þau í ríkidæmið hennar. Hún sá til þess að þau skorti ekkert og umvafði þau með ást og hlýju. Oft dáðist ég að henni fyrir það hvað hún gat látið allt ganga upp og þau Sveinbjörn saman, byggja sér hús, ala upp krakkana, keyra þau út og suður alla daga, halda heimilinu alltaf fínu og snyrtilegu. Þar að auki að hugsa um okkur systkinin hennar og svo ótalmargt sem hún hafði fyrir stafni dagsdaglega.

Þegar Hafdís systir féll frá fyrir tveimur og hálfu ári var missir Ingibjargar mikill en þær systur höfðu alltaf verið mjög nánar enda aðeins fjögur ár á milli þeirra. Var samband þeirra alla tíð mjög kærleiksríkt og fallegt. Þær systur og fjölskyldurnar fóru oft í útilegur og ferðuðust töluvert saman og fór ég stundum með.

Það kom fyrir að Ingibjörgu fannst bróðir hennar fullmikill gaur og fékk ég þá móðurlegt tiltal og er ég ekki frá því að ég hafi orðið skárri maður fyrir vikið. Aldrei bar skugga á ást og væntumþykju okkar hvors í annars garð. Alltaf var hún tilbúin að aðstoða mig og hjálpa, sama hvað var. Eitt sinn þegar ég lenti á spítala fór hún heim til mín og þreif íbúðina og vaskaði allt upp. Ég kom síðan heim eins og fínn greifi í tandurhreina íbúð.

Elsku Áslaug Ingibjörg, Guðrún Jóna, Óskar Gísli, Hafdís Arna og fjölskyldur. Ykkar missir er mikill og lífið verður tómlegt án elsku Ingibjargar.

Hafðu þökk fyrir samfylgdina elsku systir, umhyggju þína ást og hlýju.

Þar til við hittumst á ný.

Þinn bróðir,

Gísli Þór.

Kær frænka mín Ingibjörg S. Gísladóttir hefur nú kvatt hið jarðneska svið. Á stundum sem þessum reikar hugur til liðins tíma, æskuáranna og minnst er leikja og glaðværðar með þeim sem stóðu manni nær. Áslaug móðir Ingibjargar og faðir minn Friðþjófur bundust órjúfanlegum böndum þegar leysa þurfti heimili þeirra upp fyrir norðan vegna veikinda móður og þau flutt suður til vandalausra. Þessi væntumþykja og virðing smitaðist yfir til okkar barna þeirra og í þessu sambandi minnist ég einnig Hafdísar systur Ingibjargar sem kvaddi jarðvistina fyrir stuttu en eftir stendur bróðirinn Gísli Þór sem er yngstur þeirra systkina.

Systurnar í Langagerði 2 voru einstakar frænkur og voru samvistir með þeim margar í ungdæminu enda aldurinn líkur. Ferðirnar með foreldrum okkar vítt um landið gleymast ekki, Vestfirðirnir með stundirnar við Fjallfoss og heimsóknir til Höllu, Simba og Gulla á Ísó. Austfirðirnir og hitabylgja í Atlavík svo eitthvað sé nefnt. Gamlárskvöldin öll sem við áttum saman á Kársnesbrautinni hjá mömmu og pabba líða heldur ekki úr minni og var það notalegt að njóta hnallþóra mömmu rjóð í kinnum eftir að hafa fengið ylinn frá brennunni og frostið í andlitið við að skjóta flugeldunum upp. Þá er einnig að minnast allra skautaferðanna á Tjörnina í Reykjavík, já við skemmtum okkur.

Stórt skarð var svo hoggið í fjölskylduna í Langagerðinu 1974 þegar heimilisfaðirinn Gísli Ingibergsson féll frá langt um aldur fram og aðeins sjö árum síðar lést húsmóðirin Áslaug. Þessi missir var mikill fyrir systkinin ungu en þau stóðu af sér mótlætið, héldu þétt saman og systurnar gættu ungs bróður síns. Verkefnin voru þannig af hendi leyst hjá þeim að eftir var tekið.

Hvíl í friði kæra frænka.

Börnum Ingibjargar og fjölskyldum þeirra sendum við hjón innilegar samúðarkveðjur.

Ómar Friðþjófsson.

Elsku Dagga.

Ekki grunaði mig að þegar ég kvaddi þig síðast ætti ég ekki eftir að sjá þig aftur.

Dagga var nafnið sem ég gaf þér þegar ég var lítil og gat ekki borið fram Ingibjörg. Þegar ég í seinni tíð velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að byrja að kalla þig réttu nafni fannst mér það alls ekki passa. Þú varst og verður alltaf Dagga í mínum huga.

Þú, mamma og Gísli Þór voruð einstaklega samrýmd systkin og var það mikið heillaskref þegar þú spurðir mömmu hvort þú ættir ekki gerast dagmamma mín, þú værir hvort eð er heima. Þið Sveinbjörn áttuð fjögur börn fyrir þannig að þegar ég bættist við var orðið ansi margt um manninn á heimilinu. Síðan þá hefur mér alltaf liðið eins og hluti af fjölskyldunni og hefur það verið ómetanlegt. Ávallt var hægt að reiða sig á hjálp þína og ráð.

Ég á ófáar minningar úr Næfurásnum, ferðalögum og öðrum samverustundum sem við höfum átt og vil ég þakka þér fyrir þær allar ásamt þeirri hlýju og velvild sem þú sýndir mér alla tíð.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guð blessi minningu þína.

Áslaug Elín Grétarsdóttir.

Við kynntumst Ingibjörgu í fyrsta bekk í Kvennaskólanum í Reykjavík. Kvennaskólinn var þá gagnfræðaskóli og þangað komu stúlkur hvaðanæva af landinu. Ingibjörg kom úr Laugarnesskólanum eins og fleiri stúlkur í bekknum en við þrjár komum ásamt nokkrum öðrum úr Barnaskóla Hafnarfjarðar. Áslaug móðir Ingibjargar átti rætur að rekja til Hafnarfjarðar sem líklegast varð til þess að fljótt tókust með okkur kynni sem urðu að góðri vináttu alla tíð. Við kynntumst fljótlega foreldrum Ingibjargar, Áslaugu og Gísla, og systkinum hennar Hafdísi og Gísla Þór. Okkur var ávallt vel tekið á heimili þeirra þar sem ríkti mikil samheldni.

Samverustundir okkar fjögurra urðu margar og góðar á þessum árum. Við ferðuðumst saman um landið og Ingibjörg var þar góður ferðafélagi. Við nutum styrkrar stjórnar hennar og skipulags við að tjalda og halda öllu í horfinu hvort sem var í Þórsmörk, á Þingvöllum eða norðan heiða og ávallt var glatt á hjalla hjá okkur.

Með Sveinbirni hófst nýr kafli í lífi Ingibjargar og við kunnum vel að meta Sveinbjörn sem varð traustur lífsförunautur hennar. Þau bjuggu sér heimili á nokkrum stöðum í Reykjavík og á Ísafirði um tíma og gaman var að koma í heimsókn til þeirra og barnanna.

Ingibjörg lét sér annt um fjölskyldu sína og heimili og lífið gekk sinn vanagang þar til upp kom óvæntur og erfiður sjúkdómur. Við tók bið eftir nýrnaígræðslu. Ótrúlegt var að fylgjast með því hvað Ingibjörg var æðrulaus í þeirri bið. Þau Sveinbjörn létu það ekki draga úr sér að ferðast og Sveinbjörn taldi ekki eftir sér að bera þung lækningatæki á áfangastað hverju sinni. Þau voru þannig á Akureyri þegar kallið kom frá Kaupmannahöfn um að Ingibjörg fengi nýrnaígræðslu. Það varð mikill léttir fyrir hana og alla fjölskylduna og henni fannst ómetanlegt að verða frjáls ferða sinna á ný. Hún átti þó eftir að verða fyrir ýmsum heilsufarslegum áföllum en hún tókst á við þau sem fyrr með jafnaðargeði og Sveinbjörn studdi hana af mikilli ástúð.

Það varð mikið áfall fyrir Ingibjörgu og fjölskylduna þegar Sveinbjörn féll frá árið 2014. Þau hjónin höfðu undirbúið að flytja sig um set yfir í raðhús í Hraunbæ þar sem Ingibjörg hefur búið undanfarin ár ásamt dóttur sinni Guðrúnu Jónu sem reyndist móður sinni einstaklega vel en heilsu Ingibjargar hafði hrakað mjög síðustu árin.

Við vinkonurnar minnumst Ingibjargar með þakklæti fyrir áralanga vináttu og vottum fjölskyldu hennar innilega samúð.

Anna María, Guðríður og Kristín.

Það ríkti eftirvænting og kannski örlítill kvíði í hópi unglingsstúlkna sem hófu nám í 1. bekk Kvennaskólans í Reykjavík haustið 1959, í litlu kennslustofunni uppi í risi í húsinu við Tjörnina. En kvíðinn var fljótur að hverfa, hópurinn hristist saman og hnýtt voru vinabönd sem enn í dag hafa ekki slitnað.
Ingibjörg, sem nú er kvödd með miklum söknuði, var ein í þessum hópi. Hljóðlát og fíngerð og stutt í brosið, sem alltaf náði til augnanna.
Eftir fjóra vetur var svo komið að því að halda út í lífið og daglegar annir og amstur tók við af náminu, og auk fastra starfa bættust við húsbyggingar, heimilishald og barnauppeldi, en með árunum varð vináttan jafnvel innilegri og alltaf var jafn gaman að hittast og njóta saman góðra stunda.
Ingibjörg kynntist Sveinbirni sínum og þau byggðu sér glæsilegt raðhús við Næfurás og þá kom dugnaður þessarar fíngerðu konu vel í ljós, hún gekk í öll verk, hrærði steypu og var handlangari við múrverk og smíðar og hvað sem var. Þarna bjuggu þau sér og börnunum fallegt og notalegt heimili, en þegar börnin voru flogin úr hreiðrinu vildu þau minnka við sig og festu kaup á minna húsi neðar í Árbæjarhverfinu. Það hús þurfti að innrétta og lagfæra og það var því mikið áfall þegar Sveinbjörn féll frá, langt um aldur fram, svo aldrei kom að því að þau flyttu þangað saman. Það var samt ekki í eðli Ingibjargar að gefast upp, hún lauk við húsið og flutti í það. Og þar höfum við bekkjarsysturnar fengið góðar móttökur og glæsilegar veitingar.

Á undanförnum árum var heilsu Ingibjargar tekið að hraka og stundum treysti hún sér ekki til að mæta þegar við hittumst, en það var dásamlegt að núna í vor gat hún verið með okkur og það var mikið hlegið og spjallað og gert að gamni sínu. Það verður okkar síðasta minning um hana eftir rúmlega 60 ára góð kynni.
Börnum Ingibjargar og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur og kveðjum kæra vinkonu með þessari fallegu Vögguvísu Jóhanns Jónssonar:

Þey, þey og ró
þögn breiðist yfir allt.
Hnigin er sól í sjó,
sof þú í blíðri ró.
Við höfum vakað nóg,
værðar þú njóta skalt.
Þey, þey og ró,
þögn breiðist yfir allt.

4. bekkur Z,

Anna Kristófersdóttir, Edda Magnúsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Fríða Bjarnadóttir, Guðríður Þ. Valgeirsdóttir, Hulda Þorsteinsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir.