Blaðamaður á harðahlaupum frá dómshúsi Hæstaréttar Bandaríkjanna í gær
Blaðamaður á harðahlaupum frá dómshúsi Hæstaréttar Bandaríkjanna í gær — AFP/Drew Angerer

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær að Donald Trump nyti friðhelgi gagnvart ákærum sem sneru að störfum hans sem fyrrverandi forseta landsins. Friðhelgin nær þó ekki yfir það sem forsetar eða fyrrverandi forsetar gera utan opinberra embættisverka.

Trump er frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum sem haldnar eru í nóvember, þar sem hann mætir Joe Biden sitjandi Bandaríkjaforseta.

Úrskurðurinn mun að öllum líkindum seinka réttarhöldum vegna tilraunar Trumps til að snúa úrslitum forsetakosninganna árið 2020.

Sex dómarar á íhaldssama armi Hæstaréttar greiddu atkvæði Trump í vil en þrír dómarar sem tilheyra frjálslyndari armi dómstólsins greiddu atkvæði gegn fyrrverandi forsetanum.

Frjálslyndi dómarinn Sotomayor sagði að „aldrei í sögu lýðveldis okkar hefur forseti haft ástæðu til að ætla að hann væri friðhelgur gegn saksókn”.