Við þurfum að minna hvert annað á að stjórnmálaflokkur er ekki til fyrir sjálfan sig, heldur myndaður um sameiginlega hugsjón og stefnu.
Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason

Aðeins strúturinn stingur höfðinu í sandinn og neitar að horfast í augu við staðreyndir. Fyrir stjórnmálamann felur það feigðina í sér. Rökin fyrir tilveru stjórnmálaflokks finnast ekki í sandinum.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir erfiðum áskorunum á næstu vikum og mánuðum. Hvort og þá hvernig forysta og þingmenn flokksins takast á við augljóst andstreymi og pólitíska stöðu ræður úrslitum um gengi flokksins í komandi alþingiskosningum sem verða í síðasta lagi haustið 2025. Oft er það ekki sérlega skemmtilegt að líta í eigin barm þegar tekist er á við erfiðleika, en undan því komumst við ekki sem höfum notið þess trúnaðar kjósenda að sitja á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Allt frá ársbyrjun 2023 hefur Samfylkingin mælst með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, samkvæmt Gallup. Frá nóvember síðastliðnum hefur stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn aldrei mælst yfir 20% – eða í átta mánuði samfellt.

...