LOGOS-liðar Halldór og samstarfsmenn á knattspyrnumóti lögmanna fyrir nokkrum misserum.
LOGOS-liðar Halldór og samstarfsmenn á knattspyrnumóti lögmanna fyrir nokkrum misserum.

Halldór Brynjar Halldórsson fæddist 16. september í Reykjavík. „Foreldrar mínir stunduðu nám þar, en það er hins vegar vel geymt leyndarmál sem má helst eiginlega ekki upplýsa um fyrir góðan og gegnan uppalinn Akureyring. Mér var vart hugað líf fyrsta mánuð ævinnar en það slapp allt saman fyrir horn.“

Halldór Brynjar ólst upp í Lundarhverfi á Akureyri en flutti svo suður þegar hann hóf háskólanám og býr núna í Kópavogi. „Ég var svo með annan fótinn í sveitinni hjá afa og ömmu í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit.“

Hann æfði fótbolta og skák og varð Norðurlandsmeistari í skák í fullorðinsflokki þegar hann var 14 ára og síðan Íslandsmeistari 20 ára og yngri. „Ég var svo alltaf í fótbolta, í rauninni frá því að skólinn var búinn og þar til það kom kvöldmatur og líka í frímínútunum. Ég æfði með KA fram í 4. flokki.“

...